Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Talið verður aftur í Flórída

10.11.2018 - 20:12
epaselect epa07155902 A crowd protests to demand a vote recount outside the Miami-Dade Election Department in Miami, Florida, USA on 10 November 2018. A possible recount looms in a tight Florida governor, Senate and agriculture commission race.  EPA-EFE
 Mynd: EPA
Atkvæði sem greidd voru í kosningum um öldungardeildarþingmann og ríkisstjóra ríkisins á þriðjudag verða talin aftur. 67 sýslur eru í Flórída og höfðu þær fengið frest til klukkan fimm í dag að íslenskum tíma til að skila inn óopinberum úrslitum. Yfirvöld í Flórída tilkynntu um endurtalninguna eftir að fresturinn rann út.

Lögum samkvæmt ber kjörstjórn að endurtelja í Flórída sé munurinn á milli frambjóðendanna minni en hálft prósent.

AFP segir að Rick Scott, frambjóðandi Repúblikana sé samkvæmt nýjustu tölum með 12,562 fleiri atkvæði en Bill Nelson, sem nú situr í öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir hönd Demókrata í Flórída. Þar er munurinn aðeins 0,15 prósent.

Í slagnum um stöðu ríkisstjóra er, samkvæmt óopinberum tölum, Ron DeSantis, frambjóðandi Repúblikana með 33,684 fleiri atkvæði en demókratinn Andrew Gillum, eða 0,41 prósenta mun.

Endurtalningin verður gerð í vél og verður gerð kunn á fimmtudag, 15. nóvember, klukkan 20 að íslenskum tíma. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er ósáttur við þetta og skrifaði í færslu á Twitter í kvöld að þarna væri tilraun til að stela tvennum stórum kosningum í Flórída. „Við fylgjumst náið með!“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV