Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Talið að fellibylurinn María hafi banað 1.427

10.08.2018 - 04:11
epa06779321 A person places some shoes to represent one of those killed by Hurricane Maria in front of the Capitol in San Juan, Puerto Rico, 01 June 2018. Harvard University published a paper estimating the death toll for Hurricane Maria at 4,645 deaths
Fólk lagði skó á torgið framan við þinghúsið í San Juan, höfuðborg Púertó Ríkó, í hundraða tali í júní í sumar, til að minnast fórnarlamba fellibylsins Maríu. Mynd: EPA
Stjórnvöld á Púertó Ríkó hafa viðurkennt, óformlega þó enn sem komið er, að fellibylurinn María, sem gekk yfir eyjuna í september 2017, hafi orðið 1.427 manns að bana, en ekki 64 eins og haldið hefur verið fram til skamms tíma. Þetta kemur fram í skýrslu stjórnvalda til bandaríska þingsins, þar sem farið er fram á 139 milljarða Bandaríkjadala til uppbyggingarstarfs á eyjunni.

Þar eru innviðir enn í molum eftir hamfarirnar síðasta haust, vegir, dreifikerfi rafmagns og síma, skólar, sjúkrahús og fleiri opinberar byggingar; allt er þetta meira og minna skemmt og endurreisnin gengur hægt og illa.

Bandaríska stórblaðið The New York Times greindi frá því fyrst fjölmiðla, að í skýrsludrögunum viðurkenni yfirvöld í raun að margfalt fleiri hafi farist í fellibylnum og eftirköstum hans en hingað til hefur verið haldið fram. Haft er eftir talsmanni heimastjórnarinnar að 1.427 sé „raunhæf áætlun“ en opinberu tölunni verði þó ekki breytt fyrr en endanlegar niðurstöður rannsóknar sem George Washington-háskólinn er að vinna fyrir stjórnina liggja fyrir.

Áður hafði komið fram í rannsóknum tveggja óháðra aðila (NYT og samtaka óháðra blaðamanna) að dánartíðni hækkaði mjög á Púertó Ríkó fyrstu þrjá mánuðina eftir að María setti allt á hliðina í mestu hamförum sem sögur fara af á eyjunni. Ályktað var að rekja mætti um eða yfir 1.000 dauðsföll til Maríu, beint og óbeint.

Fjöldinn sem nú er gengið út frá er fenginn út með sama hætti; dauðsföll frá 20. september, deginum sem María dundi yfir, og fram í Desember eru 1.427 umfram það sem þau eru í meðalári á Púertó Ríkó, þar sem um 3,4 milljónir manna búa. Í rannsókn sem unnin var undir merkjum Harvard-háskóla komust menn að enn svakalegri niðurstöðum, því þar er áætlað að fórnarlömb Maríu og fylgifiska hennar sem herjuðu á eyjarskeggja næstu vikurnar og mánuðina eftir hamfarirnar séu yfir 4.600 talsins.