Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Taldi ummæli forstjóra kalla á skýringar

15.12.2015 - 14:19
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Ummæli forstjóra Útlendingastofnunar í Kastljósi síðastliðin fimmtudag voru meðal þess sem Umboðsmaður vísaði til sem tilefni athugunar á stjórnsýslu stofnunarinnar. Í viðtalinu kvaðst forstjórinn ekki vita hvort stofnunin hefði kannað hvort albönsku börnin sem send voru úr landi ættu kost á heilbrigðisþjónustu í Albaníu. Stjórnsýslulög skylda stofnanir til að kanna til hlítar mál áður en ákvörðun er tekin, þar með talið að afla nauðsynlegra upplýsinga.

Umboðsmaður Alþingis hefur óskað svara frá Útlendingastofnun um stjórnsýslu stofnunarinnar við afgreiðslu hælisumsókna. Tilefnið er brottvísu tveggja albanskra fjölskyldna í liðinni viku. Langveikt barn er í báðum fjölskyldunum. 

Í bréfi Umboðsmanns til Útlendingastofnunar segir að í umfjöllun fjölmiðla um málið hafi komið fram upplýsingar sem hann telji kalla á frekari skýringar Útlendingastofnunar.

„Í viðtölum við yður í fjölmiðlum hefur komið fram að í öllum málum af þessum toga sé kannað hvers konar heilbrigðisþjónusta sé í boði í heimaríki og það hafi verið gert í þessum málum. Í viðtali við yður í Kastljósi 10. desember sl. kom fram að þér vissuð ekki hvort gengið hefði verið úr skugga um að börnin gætu nýtt sér þá heilbrigðisþjónustu sem í boði væri í Albaníu,“ segir í bréfi Umboðsmanns.

„Þegar kemur að sjúkdómum og heilbrigðisástæðum þá skoðum við hvaða þjónusta er í boði í viðkomandi ríki. Ef hún er til staðar þá er ekki fallist á að mannúðarsjónarmið eigi við,“ sagði Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, þegar hún útskýrði rannsóknina í Kastljósi á fimmtudag.

Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér að ofan. Aðspurð um hvort kannað hafi verið hvort börnin hefðu kost á að nýta sér þjónustuna, kvaðst Kristín í viðtalinu ekki geta svarað því. Upplýsingar sem komið hafa fram í framhaldi af því benda ekki til þess að svo hafið verið.

Því er í raun deilt um hvort rannsókn Útlendingastofnunar hafi verið nægilega ítarleg. Umboðsmaður spyr því hvort einungis sé litið almennt til ástands heilbrigðismála í viðkomandi löndum eða hvort aðstæður viðkomandi einstaklinga séu einnig kannaðar. 

Umboðsmaður vísar til Stjórnsýslulaga í bréfi sínu til Útlendingastofnunar. Rannsóknarskylda stjórnvalda samkvæmt þeim lögum kveður á um að mál séu nægjanlega upplýst þegar ákvörðun sé tekin.

Stjórnvaldi beri að afla upplýsinga sem teljist nauðsynlegar til þess að ákvörðun sé tekin. Eftir því sem ákvarðanir séu meira íþyngjandi eða tilfinnanlegri sé krafan ríkari um að upplýsinga sé aflað og að þær séu sannar og réttar. Umboðsmaður vísar til fleiri frétta af málinu síðustu daga í beiðni sinni til Útlendingastofnunar.

Í frétt Vísis degi síðar sagði svo staðgengill forstjóra stofnunarinnar að stofnun teldi lög um útlendinga skilyrða veitingu dvalarleyfis af mannúðarástæðum því að meðferð væri til staðar í heimaríki viðkomandi. Ekki hafi hins vegar verið gengið sérstaklega úr skugga um hvort umrædd þjónusta stæði þeim til boða sem sendir væru úr landi í umrætt sinn.

Í frétt Vísis degi síðar hafi svo læknir annars albanska drengsins sagt  að Útlendingastofnun hefði aldrei ráðfært sig við hann um hvort læknisfræðilega verjandi væri að senda drenginn til Albaníu. Faðir drengsins hafi síðar lýst því í viðtali við RÚV að kæra vegna brottvísunar fjölskyldunnar hefði verið dregin til baka, þar sem ekki hafi verið rannsakað nægjanlega hvaða þjónusta byðist í Albaníu.

Umboðsmaður óskar eftir því að svar við spurningum hans berist ekki síðar en 15. janúar.