Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Talar um að selja helming á næstu árum

16.02.2017 - 22:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sala á helmingshlut ríkisins í íslensku bönkunum á næstu árum gæti orðið til þess að skuldir ríkisins væru komnar niður í tíu til fimmtán prósent af vergri landsframleiðslu árið 2022. Þar er í lok þess tíma sem fjármálastefna ríkisstjórnarinnar nær til. Þetta segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra í grein sem hann skrifar í vikuritið Vísbendingu sem kom út í dag.

Benedikt vísar í grein sinni til fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar sem var samþykkt fyrr á þessu ári. Samkvæmt henni er stefnt að því að skuldir hins opinbera lækki úr 44,5 prósentum í 26,0 prósent árið 2022. Benedikt segir þó hægt að lækka skuldir enn frekar með því að selja hlutafé ríkisins í bönkunum, þó að ekki sé gert ráð fyrir áhrifum þess í fjármálastefnunni. Hann segir verðmæti hlutar ríkisins í bönkunum vera fimmtán til 20 prósent af vergri landsframleiðslu.

Gert er ráð fyrir því í drögum að eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálastofnanir að ríkið selji hlut sinn í Arion banka, Íslandsbanka og megnið af hlut sínum í Landsbankanum. Drögin voru kynnt í síðustu viku. Benedikt vildi í samtali við RÚV á dögunum ekki tímasetja söluna umfram það að hún gæti byrjað fljótlega eftir að þrotabú Kaupþings hefur sölu sína á Arion banka og að hún stæði væntanlega lengur en svo að hún kláraðist á þessu kjörtímabili. Hann lagði áherslu á að salan réðist af aðstæðum á markaði og yrði að vera í góðri sátt. 

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, sagði ekkert liggja á bankasölunni og kvað að ekki þyrfti að ræða hana fyrr en eftir árið 2020. Hann sagði aðstæður ekki hagstæðar til að selja bankana og varaði við „einkavinavæðingu“. Smári taldi mikilvægara að lækka vexti á skuldum ríkissjóðs en að borga skuldirnar niður með bankasölu. 

Kaupþing stefnir að því að skrá hlutabréf í Arion banka í kauphöll á fyrri hluta þessa árs. Til skoðunar er að skrá hlutabréfin í fleiri en einni kauphöll, sem yrði þá væntanlega bæði innanlands og utan.