Næstu daga fjallar Spegillinn NPA sem nú er að slíta barnsskónum hér á landi. Fyrst og fremst um fólkið sem nýtir sér hana, aðstoðarfólk þess og aðstandendur en líka um sveitarfélögin sem sum hver skortir þekkingu og reynslu og taxta sem geta að sögn sumra ýtt undir svokallaðan monkey business.
Óvissuástand
NPA er ekki lengur tilraunaverkefni en samt er þjónustan ekki takmarkalaus. Það hefur ríkt ákveðin óvissa. Lögin voru samþykkt í apríl í fyrra en reglugerðin kom ekki fyrr en í lok síðasta árs. Það skapaðist ákveðið millibilsástand og óvissunni hefur ekki verið eytt alveg. Umsóknareyðublöð fyrir starfsleyfi eru til dæmis klár en handbókin um þjónustuna er ekki tilbúin og námskeiðin sem eiga að vera forsenda starfsleyfis ekki heldur. Það eru ákveðnir vaxtaverkir og það mátti heyra á starfsmönnum sveitarfélaga, sem sóttu fund um NPA fyrir nokkrum vikum, að mörgum þótti ferlið full flókið.
Nei við forræðishyggju
En hvað er NPA? Við erum ekki að tala um körfubolta þó vissulega geti NPA-samningur auðveldað notendum að iðka íþróttir. Notendastýrð persónuleg aðstoð er þjónustuform sem byggir á hugmyndafræði um sjálfstætt líf. Fatlað fólk sem er með NPA samning ræður því hvar það býr og með hverjum, það er enginn sem segir því hvar það á að búa. Það ræður því hver aðstoðar það, hvaða aðstoð er veitt, hvar hún er veitt og hvernig. Því er ekki sinnt af starfsmönnum sem fylgja skipulagi sem samið er af stjórnanda stofnunar eða embættismanni. Fatlað fólk með NPA getur gert það sem það vill þegar það vill. NPA er því ákveðin mótsögn við stofnanakerfi og forræðishyggju, þá hugmynd að einhverjir aðrir en fatlað fólk viti hvað því er fyrir bestu.