Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Takmarkaður áhugi á sameiningu

Mynd með færslu
 Mynd:
Ólíklegt er að formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu hefjist á þessu kjörtímabili. Fyrr í vetur var kynnt skýrsla sem sýndi fram á hagkvæmni slíkrar sameiningar.

Það var bæjarstjórnin á Blönduósi sem fyrst lagði til að kannaður yrði hugur sveitarstjórnarmanna í Austur-Húnavatnssýslu til sameiningar sveitarfélaganna í sýslunni. Þetta leiddi til þess að síðastliðið vor var KPMG falið að kanna hagkvæmni sameiningar og skýrsla þess efnis var lögð  fram í desember. Niðurstaðan sýndi að rekstrarlega er hagkvæmt að sameina þessi sveitarfélög, það er Húnavatnshrepp, Blönduósbæ, Skagaströnd og Skagabyggð. Skýrslan hefur nú verið til umfjöllunar hjá öllum þessum sveitarfélögum.

Bæjarstjórn Blönduóssbæjar telur mikilvægt að vinna að sameiningu og hefur falið bæjarstjóra að kanna hug hinna sveitarfélaganna til áframhaldandi vinnu þar að lútandi. Sveitarstjórn Húnavatnshrepps telur raunhæfan valkost að sameina öll sveitarfélögin, en Þóra Sverrisdóttir, oddviti, telur ekki raunhæft að hefja viðræður um smærri sameiningar. Adolf Berndsen, oddviti sveitarstjórnar á Skagaströnd, telur ólíklegt að formlegar viðræður um sameiningu verði samþykktar í tíð þessarar sveitarstjórnar. Ekki virðist sami áhugi þar og í hinum fyrrnefndu sveitarfélögunum tveimur. Í hreppsnefnd Skagabyggðar hefur ekki verið vilji til sameiningar og Vignir Sveinsson oddviti, telur ólíklegt að hreppsnefnd samþykki að taka þátt í viðræðum um sameiningu á þessu kjörtímabili.