Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Takmarka aðgengi að Geysissvæðinu

16.03.2014 - 12:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Talsmaður ferðaþjónustufyrirtækisins Allrahanda segir að hætta hafi skapast í morgun þegar landeigendafélag Geysis ákvað að loka efra hliðinu að Geysissvæðinu. Slæmt sé að beina allri umferð að neðra hliðinu, sem er alveg við þjóðveginn.

Þórir Garðarsson, talsmaður ferðaþjónustufyrirtækisins Allrahanda, gagnrýnir framgöngu landeigenda, og segir þá það geta skapa slysahættu að beina öllum gestum að neðra hliðinu. „Þetta kemur verulega á óvart, sérstaklega af öryggisástæðum. Hér er mikil bílaumferð, hér geta orðið stórslys þegar raðirnar sem hér myndast geta náð út á þjóðveginn.“  Þórir segir að betra hefði verið að loka neðra hliðinu. Hann segir þetta líta út eins og menn vilji sýna mátt sinn og megin gagnvart yfirvaldinu, með því að takmarka aðgengi að svæðinu.

Langar raðir mynduðust í gær þegar innheimta var hafin. Um tíu starfsmenn sjá um innheimtu og vörðum hefur verið komið fyrir við efra hliðið, til að hindra að menn fari þar inn.

Landeigandi á svæðinu segir um þúsund manns hafa komið í gær og seldur hafi verið aðgangseyrir fyrir um hálfa milljón króna inn á svæðið. 

 

Efra hliðinu að svæðinu lokað. Mynd: Kristín Sigurðardóttir. RÚV.