Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Taka við hælisleitendum til 1.júlí

02.04.2013 - 13:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa ákveðið að taka við hælisleitendum til 1. júlí. Þannig gefst stjórnvöldum tími til að koma málefnum hælisleitenda í betri farveg.

Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ höfðu ákveðið að taka ekki á móti fleiri hælisleitendum frá og með 1. apríl þar sem fjöldi hælisleitenda var orðinn bænum ofviða. Reykjanesbær  annast nú um 150 hælisleitendur sem dvelja þar  á meðan mál þeirra er til meðferðar í kerfinu. Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri í Reykjanesbæ segir að bæjaryfirvöld hafi hinsvegar ákveðið að veita frest  í  þrjá mánuði til viðbótar þar sem mikill vilji sé til þess að taka á þessum málum og svo virðist sem þau séu komin í betri farveg. 

„Ráðuneytið óskaði eftir því formlega og var með ýmsar lausnir sem við töldum að væri ástæða til að gefa þessu aðeins lengri tíma,“ segir Hjördís. „Það er ýmislegt að gerast, búið að bæta við starfsmönnum í innanríkisráðuneytinu og Útlendingastofnun til þess að flýta umsóknarferlinu.“

Ríkisstjórnin samþykkti þann 12. mars síðastliðinn tillögu innanríkisráðherra um að efna til tímabundins átaks til að stytta málsmeðferðartíma hælisumsókna og tryggja búsetu hælisleitenda. Hjördís vonar að eftir þrjá mánuði bíði mun færri hælisleitendur úrlausnar vegna þessara aðgerða. Hún vonar líka  að fleiri bæjarfélög komi að verkefninu. 

„Í fyrsta lagi það sem hefur gengið erfiðlega er hversu hröð fjölgunin hefur verið. Sem gerir það að verkum að við erum í vandræðum með að koma fólki í húsnæði,“ segir hún. „Ástandið er hér eins og annarstaðar, ekki hlaupið að því að fá leiguhúsnæði. Þannig að það tekur tíma að koma fólki í húsnæði og í því felst vandinn.“