Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Taka þátt í hjálparstarfi í Nepal

11.05.2015 - 20:00
Erlent · Nepal
Mynd með færslu
 Mynd: Rauði kross Íslands
Tveir Íslendingar til viðbótar hafa verið sendir á vegum Rauða kross Íslands til Nepal vegna neyðarástands þar í kjölfar jarðskjálftans í lok apríl.

Helga Pálmadóttir hjúkrunarfræðingur kom til Katmandú í dag og Elín Jónasdóttir sálfræðingur er væntanleg þangað á morgun. Ríkharður Pétursson rafiðnaðarfræðingur hefur verið í Nepal í nokkurn tíma. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossi Íslands.

Elín verður næstu fjórar vikurnar í Nepal í samstarfi við FACT-teymi Alþjóðasambands Rauða krossins við að meta þörfina á hjálparstarfi miðað við ástandið í landinu. Þá kemur hún til með að leiða alla skipulags-og greininagarvinnu um áfallahjálp og sálrænan stuðning.

Elín er komin með talsverða reynslu af slíku starfi. Hennar fyrsta sendiför á vegum Rauða krossins var til Sri Lanka í kjölfar flóðbylgjunnar miklu í Indlandshafi árið 2004 en síðan hefur hún meðal annars starfað í sérhæfðum neyðarsveitum Rauða krossins eftir jarðskjálftann á Haítí árið 2010 og í Filippseyjum eftir fellibylinn Haiyan. Síðasta sendiför Elínar var til Sierra Leone árið 2014 vegna ebólufaraldursins í landinu.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Helga starfar erlendis á vegum Rauða krossins. Hún tekur til starfa deildarhjúkrunarfræðingur í tjaldsjúkrahúsi norska Rauða krossins, sem hefur verið sett upp í Chautara í norðurhluta Nepal. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV