Taka þarf hatursáróður á netinu alvarlega

10.12.2013 - 19:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögregla og ríkissaksóknari þurfa að taka hatursáróður og hótanir á netinu alvarlega og bregðast við þeim. Vitundarvakning almennings nægir ekki til að taka á þeim vanda sem hatursumræða á netinu er. Þetta kom fram á opnum fundi mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar í dag.

Umræða á netinu virðist oftast vera mun svæsnari en gengur og gerist í mannlegum samskiptum. Þrátt fyrir að netumræða fari nú oftast fram undir nafni, hefur síst dregið úr særandi ummælum og hatursáróðri.

Með hatursáróðri er átt við illgjarnan og skaðlegan áróður sem beint er að einstaklingum eða hópi fólks. Þeir sem tjá sig á þann hátt skýla sér gjarnan á bak við tjáningarfrelsi. „Tjáningarfrelsi þitt nær ekki lengra en svo að um leið og þú ert farinn að valda öðrum sársauka og þjáningum, þar lýkur því,“ segir Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg, sem flutti erindi á fundinum.

Brýnt sé fyrir börnum að það sé rangt að leggja fólk í einelti en á netinu eru mýmörg dæmi um rafrænt einelti fullorðinna, til dæmis í athugasemdakerfum vefmiðla. Þar má oft sjá hatursáróður gegn konum, múslimum og nafngreindu fólki.  „Yfirleitt þurfum við að fara að átta okkur á því að fólk þarf að haga sér á netinu alveg eins og það þarf að haga sér í daglegu lífi. Það gilda ekki önnur siðferðislögmál á netinu en í lífinu almennt,“ segir Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur, sem einnig mælti á fundinum.

Hildur telur að ákæruvaldið ætti að standa sig betur í að rannsaka hatursglæpi og ákæra fyrir þá. „Ég held að lögreglan mætti taka þessa hluti fastari tökum. Ríkisstjórn og sveitastjórnir ættu að hafa frumkvæði að því að reyna að gera eitthvað í þessum málum.“

[email protected]