Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Taka þarf ásakanir um lögbrot alvarlega

22.11.2014 - 19:16
Mynd með færslu
 Mynd:
„Ég held að íslenskir stjórnmálamenn geti dregið mikla lærdóma af þessu máli," segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, um lekamálið. Taka verði ásakanir um lögbrot mjög alvarlega, einnig fjölmiðla og átta sig á að til séu embættismenn sem þori að gera skyldu sína.

Ólafur var í viðtali í kvöldfréttum sjónvarps. Hann sagði þrennt sem stjórnmálamenn gætu lært af þessu máli.

Í fyrsta lagi væri það svo að ásakanir um lögbrot væru alltaf mjög alvarlegar. Hann sagði þetta mál hafa minnt sig á Watergate og Tamíla-málið. Hann sagði mikilvægt að koma hreint til dyranna, segja satt frá og láta ekki hrekja sig úr einu vígi í annað.

Í öðru lagi þyrftu stjórnmálamenn stundum að taka fjölmiðla alvarlega. Ólafur sagði að í nágrannalöndum hefðu allir fjölmiðlar farið af stað í málið um leið og það kom upp. Hér hefði það aðeins verið DV sem sinnti málinu í upphafi en aðrir fjölmiðlar komið inn í málið síðar.

Loks væri þriðja atriðið sem stjórnmálamenn þyrftu að hafa í huga að til væru embættismenn sem þora að gera skyldu sína, jafnvel þó svo það væri pólitískt óþægilegt fyrir þá. Hann nefndi í þessum efnum lögregluna, saksóknara og umboðsmann Alþingis.

Ólafur sagðist telja að það væru aðallega pólitískar ástæður sem skýrðu brotthvarf Hönnu Birnu af ráðherrastóli. „Ég held reyndar að ef hún hefði brugðist skynsamlega við í upphafi hefði þetta mál aldrei orðið nema minniháttar vandræði fyrir hana." Hann sagði Hönnu Birnu hafa sýnt á ferli sínum að hún væri öflugur stjórnmálamaður sem hefði burði til að snúa aftur. Hann benti þó á að ýmsum endum væri ólokið.