Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Taka saman höndum gegn kynlífsmansali

26.10.2018 - 19:26
Samstarf um að sporna gegn kynlífsmansali sem fram fer á hótelum og leiguíbúðum í Reykjavík er í bígerð. Reykjavíkurborg stóð fyrir vinnustofu í dag þar sem ákveðið var að taka saman höndum.

Verkefnið er á byrjunarreit og að frumkvæði ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkurborgar. Í dag komu saman fulltrúar frá öllum stóru hótelkeðjunum, lögreglunni, kvennathvarfinu og samtökum kvenna af erlendum uppruna. Stofnandi sænskra samtaka, sem starfa með hótelum og öðrum fyrirtækjum víða í Evrópu kynnti starfsemi sem einblínir á vændiskaupandann.  „Ef ekki væru kynlífskaupendur væri heldur ekki kynífsmarkaður eða mansal. Við vinnum þetta út frá jákvæðum boðskap. Gagnkvæmt kynlíf, kynlíf á jafnræðisgrunni. Við teljum að við þurfum að fá fólk til liðs við okkur með jákvæðum boðskap,“ segir Malin Roux Johansson stofnandi Alvöru stjarna.

Vita ekki hvernig á að tilkynna

Samtökin heita Alvöru stjörnur sem vísar til þess að þau veita gististöðum með yfirlýsta stefnu gegn mansali gæðastimpil sinn. Hér á landi eru dæmi um að grunur hafi kviknað á hótelum um að vændi eða mansal hafi átt sér stað. Það hafi ekki endilega verið tilkynnt vegna óvissu um hvernig það skuli gert. „Það er svo mikilvægt að þau viti til hvaða ráða skuli grípa ef þau verða vör við eitthvað grunsamlegt tengt vændi eða kynlífskaupum. Þau geta þá hringt í lögregluna,“ segi Malin.

Lögreglan sagði frá því á vinnustofunni að oft flytji þriðji aðili inn fólk sem svo er látið selja kynlíf hér á landi í nokkra daga eða vikur á hótelum eða í leiguíbúðum. Þau sem saman komu í dag voru sammála um mikilvægi samstarfs til þess að sporna við slíku. „Ég er býsna vongóð í framhaldi af því sem kom fram og hvernig stemmingin var nú fyrripartinn. Það er áhugi og vilji itl að fara lengra með málin, á þann hátt sem á við á Íslandi,“ segir Malin.

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV