Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Taka ekki afstöðu til kvörtunar um neytendalán

27.03.2018 - 10:24
Innlent · EFTA · ESA · Neytendamál
Eftirlitsstofnun EFTA
Bygging EFTA í Brussel. Mynd: EFTA
ESA, eftirlitsstofnun EFTA, tekur ekki afstöðu til kvörtunar Hagsmunasamtaka heimilanna síðan í nóvember 2016 um framkvæmd verðtryggðra neytendalána á Íslandi. Lögin, sem kvörtunin sneri að, eru ekki lengur í gildi og því tekur stofnunin ekki afstöðu til þeirra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESA.

Kvörtunin varðaði meinta ranga innleiðingu á tilskipun sem var innleidd í lög um neytendalán hér á landi. Að mati ESA er gildandi tilskipun rétt innleidd. Í tilkynningunni segir að stofnunin geti ekki tekið afstöðu til innleiðingar á eldri tilskipun sem fallin sé úr gildi.

ESA getur ekki tekið afstöðu til laga sem eru ekki lengur í gildi á EES svæðinu eða á Íslandi og lokar því málinu í dag,“ er haft eftir Högna S. Kristjánssyni, stjórnarmanni ESA, í tilkynningunni.

Töldu neytendum ekki veittar nægar upplýsingar

Hagsmunasamtök heimilanna töldu að tilskipanir 2008/48/EB og 87/102/EBE um framkvæmd verðtryggðra neytendalána væru ekki í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins um upplýsingaskyldu lánveitanda varðandi kostnað vegna verðtryggingar. Neytendum hafi því ekki verið veittar réttar upplýsingar um heildarkostnað við lántöku. Í kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna til ESA segir að rannsóknir samtakanna á árunum 2010 til 2012 hafi leitt í ljós að þrátt fyrir að veita ætti neytendum upplýsingar um kostnað í formi verðbóta af verðtryggðum lánum, virðist flestir lánveitendur hafa vanrækt þá skyldu þar sem útreikningar á þeim kostaði miðuðust oftast við þá forsendu að verðbólga yrði 0 prósent á lánstímanum. Þannig hafi kostnaður vegna verðtryggingar í raun verið undanskilinn í þeim upplýsingum sem neytendum voru gefnar.

Samtökin töldu ríkið hafa gerst brotlegt

Í kvörtuninni er einnig vísað í dóm Hæstaréttar frá 2015 þar sem íslensk lög voru túlkuð þannig að samkvæmt þeim hefði þrátt fyrir allt ekki þurft að upplýsa neytendur um kostnað vegna verðtryggingar. „Fór sú niðurstaða þvert gegn ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli E-27/2013 um túlkun á ákvæðum tilskipunar 87/102/EBE. Hagsmunasamtök heimilanna telja þar með ljóst að íslenska ríkið hafi gerst brotlegt gegn skyldum sínum samkvæmt EES-samningnum, sem er tilefni kvörtunar þessarar,“ segir í kvörtuninni.

Ný tilskipun neytendalána innleidd á réttan hátt

Þegar kvörtunin barst ESA, í nóvember 2016, hafði ný tilskipun um sama efni tekið gildi á Evrópska efnahagssvæðinu og ný lög um neytendalán sömuleiðis tekið gildi á Íslandi. Niðurstaða ESA er sú að núverandi tilskipun neytendalána hafi verið innleidd á réttan hátt. Samkvæmt núgildandi lögum ber lánveitanda að upplýsa lánþega um heildarkostnað við lántöku og í ljósi þess getur ESA ekki aðhafst frekar, segir í tilkynningunni.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir