Tæring í mastri talin orsök blýmengunar

Mynd með færslu
 Mynd:
Mengun á iðnaðarsvæðinu við Vellina í Hafnarfirði er enn mikil. Uppsprettu blýmengunar má líklegast rekja til háspennumasturs segir heilbrigðisfulltrúi. Í íbúahverfinu mælist nánast engin þungmálmamengun í ryki. Gróðurvistfræðingur segir meiri mengun mælist í mosa í hverfinu en víða á landinu.

Geysileg þungmálmamengun var á iðnaðarsvæðinu í Hafnarfirði samkvæmt skýrslu Náttúrufræðistofnunar sem kom út í fyrrahaust. Þessi mengun er mæld í mosa um allt land á fimm ára fresti og þessi mæling var gerð 2010. 

Mælt er hvað mikið er af þungmálmum í tildurmosa, hann er ekki með rætur og því sýgur hann ekki mengun úr jörðu heldur fær hana úr andrúmsloftinu. 

Bæjaryfirvöld brugðust strax við eftir að sagt var frá menguninni í fréttum um miðjan október. Ákveðið var að mæla mosa aftur og víðar og inn á Völlunum. Blý getur haft hvað alvarlegust áhrif þungmálmanna á heilsu manna og ófæddra barna. 

„Niðurstöðurnar eru mjög svipaðar það er að segja styrkurinn mælist áfram hæstur eða hár á þeim stöðum þar sem var hæst áður,“ segir Sigurður H. Magnússon, gróðurvistfræðingur og skýrsluhöfundur. Aðspurður um ástandið í Vallahverfinu segir hann að þar mælist styrkurinn meira en víðast hvar á landinu.  

Páll Stefánsson heilbrigðisfulltrúi segir iðnaðarsvæðið eða þynningasvæði álversins eða stóriðjunnar undir ákveðnu álagi. „Það álag svona deyr út hér á athafnasvæðinu en þegar komið er inn í íbúahverfið hér fyrir ofan á Völlunum að þar eru áhrifin nákvæmlega engin. Mengunarástandið þar er bara alveg hliðstætt hverju öðru íbúahverfi á höfuðborgarsvæðinu.“

Páll segir að ekki sé hægt að bera saman styrk mengunar í mosa og lýðheilsu. Þess vegna hafi verið sett upp loftgæðamælir til að mæla þungmálma í ryki. „Fyrstu niðurstöður benda til þess að styrkur þungmálma í ryki sem er að berast á milli íbúahverfisins og iðnaðarhverfisins er nánast enginn.“

Sigurður segir að finna þurfi uppsprettu mengunarinnar. „Það er uppspretta þarna bæði af sínki og blýi.“

Páll heilbrigðisfulltrúi segir að ástæður blýmengunar geti verið bílaumferð eins og slit á hjólbörðum, vegna framkvæmda, atvinnureksturs og tæringar á málmi. „Það sem er líkast til helsta skýringin í þessu tilviki er að sá staður þar sem hæsta gildið mælist hann er skammt frá háspennumastri og það er gríðarleg tæring á því. En það eru margir þættir sem spila saman.“