D-listi Sjálfstæðisflokks heldur meirihluta sínum á Seltjarnarnesi, hlaut 52,5 prósent atkvæða og fjóra menn kjörna. Þetta er versta útkoma Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi í áraraðir.
Samfylkinginn fékk 29,4 prósent atkvæða og tvo menn kjörna, Neslistinn 13,4 prósent og einn mann. Framsóknarflokkurinn hlaut 4,5% og engan mann kjörinn. Kjörsókn var 68,6 prósent.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur um árabil haft yfirburðastöðu í bæjarmálunum á Seltjarnarnesi og nokkrum sinnum haft fimm bæjarfulltrúa á móti tveimur fulltrúum minnihlutans. Leita þarf aftur til ársins 1962, tólf árum áður en Seltjarnarnes hlaut kaupstaðarréttindi, að jafn slöku gengi hjá flokknum í bænum.
Skoðanakannanir höfðu gefið til kynna að flokkurinn fengi 66 prósent atkvæða í kosningunum og jafnvel sex bæjarfulltrúa af sjö.
Í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn verða Ásgerður Halldórsdóttir, Guðmundur Magnússon, Bjarni Torfi Álfþórsson og Sigrún Edda Jónsdóttir. Margrét Lind Ólafsdóttir og Guðmundur Ari Sigurjónsson verða fulltrúar Samfylkingarinnar og Árni Einarsson fyrir Neslistann.