Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tæpur helmingur stúlkna beðinn um nektarmynd

04.12.2018 - 12:17
Mynd með færslu
 Mynd: Stocksnap - Pexels
Tæpur helmingur stúlkna í tíunda bekk hefur verið beðinn um að senda ögrandi mynd eða nektarmynd af sér. Um fjórðungur nemenda tíunda bekkjar hefur sent slíkar myndir. Þetta kemur fram í rannsókn sem gerð var meðal nemenda á landsvísu í mars á þessu ári. Niðurstöðurnar eru svipaðar og annars staðar í Evrópu, segir Jón Sigfússon, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Rannsóknir og greining.

Rannsóknir og greining gera reglulegar kannanir meðal nemenda í áttunda til tíunda bekk. Í fyrsta sinn var nú spurt um sendingar nektarmynda og segir Jón að ástæðan hafi verið sú að svokallað „sexting" sé orðið algengt alls staðar í heiminum. „Við ákváðum að kanna umfangið á Íslandi en við höfum heyrt að þeir sem misnoti sendingar af þessu tagi fái ungt fólk til að senda myndirnar sjálft."

Svörin við spurningunni sýna að 48% stúlkna í tíunda bekk hafa verið beðin um þannig sendingu, 28% hafa sent slíka mynd af sér og 14% hafa beðið einhvern annan um að senda þannig mynd. Á meðal stráka í tíunda bekk hafa 28% verið beðin um að senda ögrandi mynd eða nektarmynd af sér, 21% hafa gert það, og 23% hafa beðið einhvern um að senda sér þannig mynd.

Nemendur í áttunda bekk eru ólíklegri til að hafa sent mynd af sér en þó hafa nær fjórðungur stúlkna og 12% drengja í áttunda bekk verið beðin um það.

Í kynningu fyrirtækisins á niðurstöðunum segir að samfélagsmiðlar hafi breytt umhverfi ungs fólks og að mikilvægt sé að tala við börn og ungmenni um nektarmyndir, ögrandi myndir og myndir sem þeim þykja óþægilegar. Fræðslan þurfi að fela í sér að þau skilji hvers vegna ekki eigi að biðja aðra um slíkar myndir og hvers vegna ekki eigi að senda slíkar myndir.

Auður Aðalsteinsdóttir