Tæknirisar láta Trump heyra það

29.01.2017 - 13:28
epa05755552 US President Donald J. Trump signs Executive Orders in the Hall of Heroes at the Pentagon in Arlington, Virginia, USA, 27 January 2017.  EPA/Olivier Douliery / POOL
 Mynd: EPA - Abaca POOL
Stórfyrirtæki í hátæknigreinum á borð við Apple, Google, Facebook og Microsoft hafa látið í ljós óánægju sína með tilskipun Donald Trump, Bandaríkjaforseta, sem lokar landamærum Bandaríkjanna tímabundið fyrir flóttamönnum og ríkisborgurum sjö tilgreindra landa.

Starfsmenn hátæknifyrirtækja í Bandaríkjunum eru margir hverjir af erlendu bergi brotnir. Tilskipun Trump hefur því bein áhrif á fjölda starfsmanna þessara fyrirtækja.

Tim Cook, framkvæmdastjóri Apple, sendi starfsmönnum fyrirtækisins um allan heim skorinorðan tölvupóst í dag þar sem fram kemur að fyrirtækið styðji alls ekki stefnu Trump. Bréfið er birt á vef Business Insider en þar segist Cook hafa gert yfirvöldum í Washington grein fyrir því innflytjendur skipti sköpum, bæði fyrir fyrirtækið sjálft og framtíð þjóðarinnar.

„Apple væri ekki til ef ekki væri fyrir innflytjendur," segir í bréfinu, en eins og kunnugt er var Steve Jobs, stofnandi Apple, sonur innflytjenda frá Sýrlandi.

„Ég hef sagt það oft að fjölbreytni gerir starfsliðið okkar þeim mun sterkara," segir Cook og bætir því við að lögfræðingar Apple hafi sett sig í samband við starfsmenn sem gætu lent í vandræðum vegna tilskipunar Trump. „Apple mun gera allt til að styðja þá."

Með tölvupóstinum bættist Tim Cook í hóp fleiri stjórnenda tæknifyrirtækja sem höfðu lýst áhyggjum af stefnu Trump. Stjórnendur Microsoft tilkynntu í gær að 76 starfsmenn fyrirtækisins komi til með að lenda í vandræðum vegna tilskipunar Trump. 

Mark Zuckerberg, framkvæmdastjóri Facebook, lýsti óánægju sinni strax á föstudag og sagði að Bandaríkin ættu að bjóða flóttamenn velkomna. „Bandaríska þjóðin er samansett af innflytjendum og við megum vera stolt af því.“

Þá hefur netrisinn Google kallað heim starfsmenn sem hafa unnið fyrir fyrirtækið í þeim löndum sem ferðafrelsi hefur verið takmarkað af Trump. Forstjóri Google segist áhyggjufullur vegna þessa en tilskipunin hafi áhrif á rúmlega eitt hundrað starfsmenn fyrirtækisins.

Með tilskipun Bandaríkjaforseta er ríkisborgurum frá sjö löndum bannað að koma til landsins. Löndin eru Írak, Sýrland, Súdan, Íran, Sómalía, Líbía og Jemen. Þar er einnig kveðið á um að móttöku flóttamanna skuli frestað í 120 daga og að flóttamönnum frá Sýrlandi og Írak verði bannað að koma til landsins.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi