Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tæknin myndar flekaskil milli kynslóða

Mynd:  / 

Tæknin myndar flekaskil milli kynslóða

23.11.2018 - 09:10

Höfundar

Smásögur Fríðu Ísberg í bókinni Kláða fjalla flestar um fólk af hennar kynslóð, samskipti, klám, kvíða og það metnaðarkapphlaup sem ungt fólk í dag þarf að þreyta.

Fríða Ísberg gaf út ljóðabókina Slitförin í fyrra og fyrir hana hlaut hún Bóksalaverðlaunin í flokki ljóða, auk þess sem hún var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2018. Hún hefur birt ljóð, sögur og greinar í ýmsum tímaritum hérlendis og erlendis en Kláði er hennar fyrsta smásagnasafn. Sögurnar þykja í senn djarfar, sposkar og ríkar af innsæi og allar virðast þær tengjast kláða á einhvern hátt.

„Þetta eru smásögur sem fjalla að mestu leyti um ungt fólk og viðfangsefni sem ungu fólki klæjar undan. Hugtök sem okkur klæjar í og undan á sama tíma. Eins og viðurkenning og metnaður, að verða eitthvað auðvitað. Ég er rosalegur aðdáandi smásagnasafna úti í heimi sem hverfast um einn pól. Þessi titill kom um miðbik bókarinnar, þegar ég var búin að skrifa helminginn og þá byrjaði ég að skrifa aktíft inn í þetta þema,“ segir Fríða um titil bókarinnar.

Mynd með færslu
 Mynd:
Smásagnasafnið Kláði eftir Fríðu Ísberg kom út hjá forlaginu Partus fyrr í haust.

Sögurnar eiga það sammerkt að fjalla um kynslóð höfundar og öll þau verkefni og vandamál sem ungt fólk á við að etja, þar á meðal samskipti. Fríða segir að sú kynslóð sem nú sé að alast upp eigi til dæmis erfitt að mynda augnsamband við annað fólk. „Ég upplifi það alla vega þannig að maður treystir minna á sína eigin reynslu. Ég er beinlínis búin að vera fyrir framan skjá síðan ég var í fimmta bekk. Að tala við fólk á MSN og Myspace og síðar inni á Facebook og auðvitað hefur þetta áhrif á samskipti fólks. Við kunnum ekki jafn vel að treysta á tilfinningu og læra núansana sem fylgja mannlegu samtali og þaðan kemur kvíðinn. Þaðan kemur þessi samfélagsmiðlakvíði.“

Fríðu finnst ákaflega áhugavert að skoða þessi samskipti ungs fólks í dag og hún vill meina að þessi kynslóð eigi erfitt með að taka á móti viðurkenningu í formi bross eða í blæbrigðum í röddu. Það eina sem virkar er lækið og viðurkenningin á samfélagsmiðlum. „Svo er það þetta kynslóðabil sem er að verða til. Ég held að það séu svolítið skörp skil að myndast. Þetta eru svona flekar sem eru að færast í sundur, einfaldlega vegna tækninnar,“ segir höfundurinn Fríða Ísberg.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Smásagan er innsýn ekki úrlausn