Fríða Ísberg gaf út ljóðabókina Slitförin í fyrra og fyrir hana hlaut hún Bóksalaverðlaunin í flokki ljóða, auk þess sem hún var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2018. Hún hefur birt ljóð, sögur og greinar í ýmsum tímaritum hérlendis og erlendis en Kláði er hennar fyrsta smásagnasafn. Sögurnar þykja í senn djarfar, sposkar og ríkar af innsæi og allar virðast þær tengjast kláða á einhvern hátt.
„Þetta eru smásögur sem fjalla að mestu leyti um ungt fólk og viðfangsefni sem ungu fólki klæjar undan. Hugtök sem okkur klæjar í og undan á sama tíma. Eins og viðurkenning og metnaður, að verða eitthvað auðvitað. Ég er rosalegur aðdáandi smásagnasafna úti í heimi sem hverfast um einn pól. Þessi titill kom um miðbik bókarinnar, þegar ég var búin að skrifa helminginn og þá byrjaði ég að skrifa aktíft inn í þetta þema,“ segir Fríða um titil bókarinnar.