Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tæki 18 ár að útrýma einbreiðu brúnum

21.09.2016 - 18:46
Mynd með færslu
 Mynd:
18 ár tæki að útrýma einbreiðum brúm á hringveginum miðað við að aukafjárveitingartillaga stjórnarmeirihlutans í samgöngunefnd yrði framlengd umfram þau tvö ár sem hún nær til.

39 einbreiðar brýr eru á hringveginum, en auk þess eru fjölmargar einbreiðar brýr á öðrum vegum landsins. Verið er að reisa nýja tvíbreiða brú sem kemur til með að leysa Skeiðarárbrú af hólmi. Auk þess hverfa fimm einbreiðar brýr með nýjum vegarköflum sem áætlað er að leggja á næstunni í nágrenni Hornafjarðar og Djúpavogs. Þá standa eftir 34 einbreiðar brýr.

100 milljónum króna hefur verið veitt sérstaklega í breikkun brúa á þessu ári og í fyrra.  Allt það fé hefur farið í brúna sem kemur í stað Skeiðarárbrúar. Í fjögurra ára samgönguáætlun 2015-2018, sem innanríkisráðherra mælti fyrir á Alþingi í vor og er nú til meðferðar í þinginu, er gert ráð fyrir að þrefalda framlagið, svo það verði 300 milljónir króna á ári 2017 og 2018.

Miðað við 300 milljóna króna árlegt framlag er áætlað að 48 ár tæki að útrýma einbreiðum brúm á hringveginum, samkvæmt útreikningum Vegagerðarinnar sem fréttastofa greindi frá á þriðjudag. Í þeim útreikningum voru brýrnar fimm, sem áætlað er að verði teknar úr notkun á næstunni, teknar út.

Stjórnarmeirihlutinn í samgöngunefnd hefur kynnt breytingartillögu við samgönguáætlunina þar sem er gert ráð fyrir að árlega framlagið verði aukið um hálfan milljarð króna á ári 2017 og 2018, umfram þá aukningu sem áður hafði verið ráðgerð, og verði því 800 milljónir króna á ári.

Færi svo að framlagið yrði áfram 800 milljónir króna á ári eftir 2018 myndi tíminn sem tæki að útrýma einbreiðum brúm á hringveginum styttast í 18 ár, samkvæmt uppfærðum útreikningum Vegagerðarinnar.

Þar er gert ráð fyrir að hver metri af nýrri brú kosti rúmlega fjórar milljónir króna. Auk þess er áætlað að 100 milljónir króna kosti að tengja hverja nýja brú við hringveginn. Brýrnar 34 eru samtals rúmlega 2,5 kílómetrar á lengd, og er heildarkostnaðurinn við að skipta þeim út áætlaður tæplega 14,4 milljarðar króna.