Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Systurnar í Sjólaskipum sakaðar um skattsvik

29.07.2019 - 12:06
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Embætti héraðssaksóknara hefur ákært tvær systur, sem oft eru kenndar við útgerðarfélagið Sjólaskip, fyrir meiri háttar skattalagabrot. Þær hafi skilað efnislega röngum skattframtölum. 

Meint brot áttu sér stað á árunum 2008 og 2009. Samtals eru systurnar sakaðar um að hafa ekki gefið upp um 550 milljónir og þar með skotið um 55 milljónum króna undan skatti. 

Systurnar hafi ekki gefið upp fjármagnstekjur

Önnur systranna er ákærð fyrir að hafa ekki gefið upp tæpar 150 milljónir fjármagnstekna á skattaframtölum þessi ár og þar af leiðandi ekki greitt um fimmtán milljónir í skatt. 

Hin þeirra er sökuð um að hafa vantalið um 400 milljónir. Hún hafi því ekki greitt um 40 milljónir í fjármagnstekjuskatt.  

Meðal annars hafi þær ekki gefið upp greiðslur frá félaginu Hafnarfelli, viðskipti með hlutdeildarskírteini, meðal annars í sjóðnum Kaupthing Liquidity Fund, og viðskipti með evrur. 

Brotin varði við almenn hegningarlög

Í ákærum á hendur systrunum segir að brot þeirra varði við almenn hegningarlög. Héraðssaksóknari krefjist þess að þær verði dæmdar til refsingar. Í lögunum segir að allt að sex ára fangelsi geti legið við meiri háttar brotum á tekjuskattslögum, auk fésektar. 

Héraðssaksóknari hafi gefið út fimm ákærur á hendur systkinunum

Fréttastofa greindi frá því í síðustu viku að annar bræðranna hefði verið ákærður fyrir að skila efnislega röngum skattframtölum árin 2006 til 2009. Hann hafi vantalið um 245 milljónir króna og þannig komist undan greiðslu 70 milljóna króna skatts.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur embætti héraðssaksóknara gefið út fimm ákærur á hendur systkinunum fjórum. Þau eru ákærð hvert í sínu lagi auk þess sem bræðurnir eru ákærðir saman í einu málinu. Fréttastofa hefur þrjár af ákærunum undir höndum. 

Systkinin nefnd í Panamaskjölunum

Fréttatíminn, í samstarfi við Reykjavík media, greindi frá því fyrir nokkrum árum að nöfn systkinanna fjögurra væri að finna í Panamaskjölunum. Skattrannsóknarstjóri hefði sent viðskipti þeirra í skattaskjólinu Tortóla til rannsóknar hjá héraðssaksóknara.

Fréttin hefur verið uppfærð.