Sýrlendingar opna kebabstað á Akureyri

31.03.2017 - 11:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Hluti sýrlensku flótttamannanna sem hafa komið til Akureyrar á síðustu tveimur árum stefna nú að því að opna sölubás í göngugötu miðbæjarins þar sem boðið verður upp á sýrlenskan og tyrkneskan mat.

Í gær spratt upp Facebook-síða undir nafninu „Aleppo kebab - Akureyri“ og viðbrögð Akureyringa létu ekki á sér standa. Nú þegar hafa rúmlega þúsund manns sett „like“ við síðuna þar sem greint er frá því að til standi að opna staðinn. 

„Við höfum verið að bjóða íslenskum vinum okkar í mat síðastliðið ár og það hefur verið vinsælt. Nú ætlum við að opna þennan stað og vonandi getum við gert það í maí,“ segir Khattab Al Mohammad, sýrlenskur flóttamaður frá Aleppo, sem fer fyrir hópnum.
 

Merki Aleppo-Kebab vísar í borgarvirkið í Aleppo sem hefur orðið fyrir talsverðum skemmdum í stríðinu.

Hafa mikla reynslu í matargerð

Khattab starfaði áður sem enskukennari en ætlar nú að reyna fyrir sér í veitingageiranum. Hann, fjölskylda hans og aðrar sýrlenskar fjölskyldur sem búa á Akureyri hafa lagt hönd á plóg. „Við höfum í raun ekki mikla reynslu af því að reka veitingastað en við kunnum það öll mjög vel að búa þennan mat til og höfum mikla reynslu af því.“

Íslenskir vinir þeirra og stuðningsfjölskyldur hafa einnig hjálpað til við að afla tilskilinna leyfa og fá sendan sérstakan matarvagn sem settur verður niður við göngugötuna. Þar geta nokkrir sest inn og fengið sér að borða eða tekið matinn með sér. Á Facebook kemur fram að boðið verður upp á sýrlenskan og tyrkneskan skyndibita, svosem falafel, shawarma og baklava. Einnig verður í boði að fá sér salat eða hefðbundna sýrlenska rétti, eins og kebbeh sem sést hér að neðan.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi