Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Sýrlendingar fá hraða afgreiðslu

03.09.2013 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Sænsk yfirvöld hafa ákveðið að veita öllum sýrlenskum hælisleitendum í Svíþjóð dvalarleyfi til frambúðar. Útlendingastofnun á ekki von á að sýrlenskir flóttamenn hópist hingað til lands. Mál þeirra sem koma verða sett í forgang en engum verður veitt hæli sem ekki er kominn til landsins.

Meira en tvær milljónir sýrlenskra flóttamanna hafa flúið land. Svíþjóð er fyrsta Evrópusambandsríkið sem veitir öllum sýrlenskum flóttamönnum sem komið hafa til landsins ótímabundið dvalarleyfi af mannúðarástæðum.  Sænsk yfirvöld tilkynntu þessa ákvörðun í dag. 8.000 sýrlenskir flóttamenn mega því vera í landinu eins lengi og þeir vilja. Áður hafði rúmum helmingi sýrlenskra hælisleitenda verið veitt hæli en hinum tímabundið dvalarleyfi til þriggja ára. Frá því í ársbyrjun í fyrra hafa 14.700 Sýrlendingar sótt um hæli í Svíþjóð.  

Ákvörðunin var tekin í ljósi versnandi átaka í Sýrlandi og að engin lausn væri í sjónmáli. Auk þess er flóttamönnunum gert kleift að flytja nánustu fjölskyldu til landsins. Komi í ljós að einhver þeirra hafi framið stríðsglæp í Sýrlandi fellur leyfið úr gildi.  

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, segir að sú ákvörðun hafi verið tekin hér í upphafi átakanna að sýrlenskir flóttamenn fengju hraða afgreiðslu. Ekkert hafi breyst síðan þá. Hún á ekki von á að margir sýrlenskir flóttamenn sæki hingað til lands. 

„Nei svona í ljósi reynslunnar þá áttum við ekki von á mörgum þegar átökin hófust og það reyndist rétt vera,“ segir Kristín. Henni þykir ólíklegt að það breytist héðan í frá. Fólk sækist eftir því að komast til ættingja og vina í Evrópu og samfélag Sýrlendinga sé ekki stórt hér á landi. „Að sjálfsögðu gæti einhverjir komið en ég á ekki von á að þetta verði einhver stór hópur.“

Kæmi hinsvegar hópur sýrlenskra flóttamanna hingað til lands yrði teymi fagaðila sett í gang, meðal annars frá Innanríkisráðuneytinu og Rauða krossinum. En fengi sá hópur hæli?

„Við veitum Sýrlendingum í dag svokallaða viðbótarvernd; það er þá vernd til fjögurra ára. Og í rauninni fer þá ekki sú sama málsmeðferð í gang og eins og hinn hefðbundni hælisleitandi er að fá,“ segir hún. „Þannig að það gengur hraðar fyrir sig, en það er þá að því gefnu að fólk sé sannarlega frá Sýrlandi og nýkomið þaðan.“

Engum sýrlenskum flóttamanni verði hinsvegar veitt hæli sem ekki er kominn til landsins. Nema ríkisstjórnin ákveði annað. Sýrlendingar sem þegar eru á landinu geta sótt um að fá nánustu fjölskyldu sína til sín á grundvelli fjölskyldusameiningar. Það er börn undir 18 ára, maka  og foreldra sem orðnir eru 67 ára.