Synjun á akstursþjónustu felld úr gildi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur fellt úr gildi ákvörðun Dalvíkurbyggðar um synjun á umsókn einstaklings um ferðaþjónustu fatlaðra. Málinu hefur verið vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

Einstaklingur með fötlun óskaði eftir ferðum frá heimili og á áfangastað vegna náms. Í úrskurði nefndarinnar segir að samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks skuli sveitarfélög gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu en markmið hennar sé að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.

Telja staðhæfingar sveitarfélags órökstuddar

Í synjun vísaði Dalvíkurbyggð til þess að fötlun einstaklingsins væri ekki þess eðlis að hann falli undir skilyrði sveitarfélagsins um akstursþjónustu fólks með fötlun. Í útskurðinum segir að sú staðhæfing sé hvorki rökstudd nánar né studd neinum gögnum. „Dalvíkurbyggð hefur einnig vísað til þess að greiðslur til foreldra kæranda hafi tekið mið af slæmri fjárhagsstöðu þeirra en þær forsendur hafi breyst. Þá kemur fram í hinni kærðu ákvörðun að kærandi sé með tekjur og geti hæglega borgað sjálfur fyrir aksturinn,“ segir í úrskurðinum.

Ekki heimilt að líta til fjárhagslegra sjónarmiða

Úrskurðarnefndin tekur fram að samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks sé ekki gert ráð fyrir að heimilt sé að líta til fjárhagslegra sjónarmiða þegar tekin er ákvörðun um ferðaþjónustu fatlaðra einstaklinga. Sú skylda hvíli á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.

Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir að aðstæður kæranda voru ekki rannsakaðar með fullnægjandi hætti, þannig að hægt væri að taka upplýsta ákvörðun um hvort hann ætti rétt á ferðaþjónustu fatlaðra. Ákvörðun sveitarfélagsins var því felld úr gildi.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi