Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Synjaði beiðni um að kalla saman þing

13.03.2015 - 13:40
Mynd með færslu
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks var rétt ókomin þegar myndin var tekin.  Mynd: Rúv
Þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkana eru æfir yfir því að þingforseti hafnaði á formannafundi í morgun að þing yrði kallað saman til að ræða bréf ríkisstjórnarinnar til Evrópusambandsins um Ísland sé ekki lengur í umsóknarferli að sambandinu.

Forseti Alþingis segir reginmun á bréfinu sem utanríkisráðherra afhenti í gær og áformum sem uppi voru 2013 um að slíta viðræðum.

Formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar fóru fram á við forseta Alþingis í morgun að þing yrði kallað saman í dag til að ræða bréf sem utanríkisráðherra afhenti fulltrúum Evrópusambandsins í gær. Þingforseti hafnaði því og segir að utanríkisráðherra þurfi að vera viðstaddur þá umræðu en hann er ytra. Þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar telja að þingsályktun um aðildarviðræður sé enn í gildi.

„Það sem gerist á þessum fundi er það að þingforseti meinar okkur að halda þingfund í dag. Og ég held að það sé mjög sérstakt að dyr þingsalarins séu lokaðar þegar að 25 þingmenn óska eftir þingfundi vegna svona stöðu,“ segir Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna. 

Stjórnarmeirihlutinn treysti sér ekki til að ræða málið

„Við höfum lagt áherslu á það í ljósi þess að það hefur verið gengið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar og brotið á þingskaparlögum um samráð við utanríkismálanefnd að það verði kallaður saman þingfundur strax. En það er greinilegt að stjórnarmeirihlutinn treystir sér ekki til þess að ræða þessar aðgerðir enda vonlegt. Það er fullkomin skömm að þessari framgöngu ríkisstjórnarinnar gagnvart þinginu. Ályktun Alþingis er í fullu gildi og ég held að það sé nauðsynlegt að þingið árétti það að hún er í fullu gildi. Framkvæmdavaldið getur ekki með þessum hætti gengið gegn ályktun þingsins. Það má hverjum manni vera ljóst,“ segir Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. 

„Það er greinilega verið að nýta nefndaviku hér í Alþingi þegar þingfundur er ekki til þess að keyra þetta í gegn þegar engin hætta er á að menn ræði þetta hér í salnum,“ segir Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar. Störf þingsins séu í uppnámi eftir þetta. „Og menn geta ekki keyrt í gegn svona meiriháttar ákvarðanir þegar þingið er ekki starfandi.“ 

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata, segir þetta mikil vonbrigði. „Það eru mjög mikil vonbrigði og það veldur mér áhyggjum á hvaða leið við erum að fara núna. Þetta snýst ekkert lengur um ESB, þetta snýst varla um þjóðaratkvæðagreiðslu lengur, þetta snýst um fyrstu grein stjórnarskrár lýðveldisins, þetta snýst um stjórnskipan landsins. Það þarf að útkljá þetta og það verður ekki gert nema á þingfundi. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.“ 

Endurmeta þurfi samstarfið á þingi

„Það liggur algjörlega fyrir að við þurfum að endurmeta algjörlega samstarfið hér í þinginu og það snýst ekki um aðildarumsóknina að Evrópusambandinu heldur það að menn telja að þeir geti farið fram með svo stórar ákvarðanir án þess að bera það undir þingið eða þjóðina,“segir Svandís Svavarsdóttir.

En hefur þetta bréf ríkisstjórnarinnar þá ekkert gildi út af því að þingsályktunin er á annan veg? „Mér finnst það einmitt vekja spurningar um þetta og ég held að það sé rétt að stjórnarflokkarnir svari fyrir það hvort þingsályktunin sé ekki ennþá í fullu gildi og hver sé þá eiginlega orðin staða Íslands í þessu stóra og mikilvæga máli,“ segir Svandís.

Nauðsynlegt að utanríkisráðherra sé til svara

Forseti Alþingis féllst ekki á þá ósk minnihlutans að kalla saman þing í dag. „Ég taldi það bara einfaldlega ekki mjög skynsamlegt að gera það við þessar aðstæður þar sem að forsvarsmaður málsins, utanríkisráðherra, getur ekki verið viðstaddur umræðuna. Og það er auðvitað ljóst mál að það er mikill meiningarmunur um það hvernig túlka beri það bréf sem ráðherra hefur sent og til Evrópusambandinu og til þess að þessi umræða geti farið fram með upplýsandi hætti þá taldi ég bara einfaldlega mikilvægt að utanríkisráðherra væri til staðar til þess að gera grein fyrir forsendum og ástæðum og því sem lægi til grundvallar þessu bréfi,“ segir Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis.

Hann segir að árið 2013 hafi því verið lýst yfir að ætlunin væri að slíta viðræðum við Evrópusambandið formlega. Það kallaði á að málið færi fyrir Alþingi í formi þingmáls. Nú sé hins vegar verið að skrifa bréf til ESB þar sem óskað sé eftir því að Ísland hafi ekki lengur stöðu umsóknarríkis. „Á þessu tel ég vera reginmun. Um það eru ekki allir sammála. Um það sneri meðal annars ágreiningurinn milli mín og hluta af þingflokksformönnum sem að funduðu hér áðan,“ segir Einar. 

Orðið slit komi ekki fyrir í bréfinu

„Ég lít þannig á að þetta bréf sem nú hefur verið sent sé til áréttingar á því að við erum ekki í þessum viðræðum og viljum þess vegna ekki, að ef það er vilji ríkisstjórnarinnar að við séum þar af leiðandi ekki umsóknarþjóð.“

En hlýtur það ekki að þýða að maður sé hættur? „Ég ætla út af fyrir sig að tjá mig ekkert frekar um það. Þetta er staðan að mínu mati eins og hún blasir við og ég vek athygli á því að orðið slit koma ekki fyrir í þessu bréfi,“ segir Einar.