Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sýnist að dregið sé úr húsnæðisstuðningi

11.09.2018 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Deildarstjóri hagdeildar Alþýðusambands Íslands segir að svo virðist sem dregið sé úr húsnæðisstuðningi, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Tillögur í skatta- og bótamálum þurfi að skoða í tengslum við endurskoðun skattkerfisins, sem ekki liggi fyrir ennþá.

Henný Hinz, deildarstjóri hagdeildar ASÍ, tekur fram að frumvarpið sé nýkomið fram og því hafi ekki gefist tími til að leggja á það mat. Hún bendir á að í frumvarpinu og umræðunni undanfarið sé mikið vísað til þess fara þurfi í löngu tímabæra endurskoðun á tekjuskattskerfinu og vinna sé hafin við að bæta samspilið við barna- og vaxtabætur og hjá ASÍ hafi verið lögð mikil áhersla á það.

„Hins vegar eru kannski ekki lagðar fram heildstæðar tillögur í því efni þarna, það eru tekin ákveðin skref eða horft til ákveðinna þátta, eins og hækkun á persónuaflætti um 1% umfram lögbundna verðlagshækkun. Svo er þarna örlítil viðbót inn í barnabæturnar, sem við getum sagt að sé löngu tímabær, barnabæturnar hafa á undanförnum árum rýrnað all verulega,“ segir Henný Hinz

Í fréttatlkynningu frá fjármálaráðuneytinu er bent á að 25 milljarðar króna fari í stuðning vegna húsnæðis.

„Húsnæðisstuðningurinn, hann er frá fyrra ári að lækka að því er ég fær best séð. Það er ekki verið að bæta inn í vaxtabótaþáttinn neitt.“

Henný segir á þessari stundu erfitt að meta dæmið, skoða þurfi þessa þætti frumvarpsins í samhengi við þá heildarendurskoðun sem fara á í á tekjuskattskerfinu og niðurstöður eigi að liggja fyrir á haustdögum. Í frumvarpinu sé ýmislegt jákvætt.

„Eins og aukin framlög til heilbrigðismála, aukin framlög til heilsugæslunnar og uppbygging auðvitað á nýjum Landspítala. Þetta eru auðvitað jákvæðir þættir sem ber að fagna.“

Eftir eigi að greina þann þátt betur, en ekki verði þó í fljótu bragði séð hvort og þá hvernig dregið verði úr kostnaðarþátttöku sjúklinga, eins og ASÍ hafi lagt áherslu á. Henný lýsir áhyggjum af tekjustofnum ríkisins, sem hafi verið veiktir á undanförnum árum. Í góðæri eins og nú sé það ekki mikið vandamál þegar tekjurnar streymi inn. Hins vegar sé ástæða til þess að óttast þegar hægist á, þá dugi tekjustofnar ríkisins ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum til velferðarmála. Þá verði líklega skorið verulega niður eða skattar hækkaðir á móti. 

„Þetta höfum við gagnrýnt mjög mikið og þetta hefur mikil áhrif á getur ríkisins til þess að standa undir þeirri nauðsynlegu velferð sem að við teljum að ríkissjóður eigi að gera,“ segir Henný Hinz.

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV