„Sýnir ótta hennar við þjóðina“

12.03.2015 - 18:53
Mynd með færslu
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. Mynd: RÚV. Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
„Þetta sýnir bara ótta ríkisstjórnarinnar við þjóðina og þingið að hún skuli ekki treysta sér að fara að eðlilegum leikreglum.“ Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar um þá yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki að Evrópusambandinu.

Gunnar Bragi Sveinsson afhenti í kvöld utanríkisráðherra Letta, sem fer með formennsku í ESB,  bréf þess efnis að ríkisstjórnin hefði samþykkt að hún ætli ekki að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið á nýjan leik - ríkisstjórnin líti svo á að Ísland sé ekki lengur í hópu umsóknarríkja.

Árni Páll Árnasson, formaður Samfylkingarinnar, segir að þessar fréttir hafi komið flatt upp á hann - á þessu hafi hann ekki átt von. „Þetta lýsir náttúrlega svo mikilli vanmáttarkennd og svo miklum ótta við þjóðina að það kom meira að segja mér á óvart að þeirra eigin sjálfsmynd í utanríkismálum væri svona veik.“

Árni Páll segir það grátbroslegt að sjá ríkisstjórnina í þessum tilraunum að komast undan meginreglum lýðræðisins í landinu - þetta hafi verið samþykkt fyrir nokkrum dögum og síðan farið með þetta eins og mannsmorð.

Árni Páll bendir þó á að þetta bréf sem utanríkisráðherra hafi afhent í Slóvakíu í kvöld breyti ekki því umboði sem Alþingi hafi veitt. „Þetta ber bara vitni um að ríkisstjórnin hafi ekki vald á viðfangsefninu.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi