Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sýnir furðuflugur í miðri Signu

Mynd: Sigurður Árni Sigurðsson / Sigurður Árni Sigurðsson

Sýnir furðuflugur í miðri Signu

07.04.2018 - 10:00

Höfundar

Myndlistarmaðurinn og fluguveiðimaðurinn Sigurður Árni Sigurðsson tekur þátt í óvenjulegri samsýningu sem opnar nú um helgina á nokkrum stöðum á eyjunni Île Saint-Louis í miðri Signu í miðborg Parísar. Hann hefur lengi haft augastað á sýningarstaðnum sem hann valdi sér.

„Ætli það sé ekki ár síðan að galleristinn minn hér úti, Aline Vidal, nefndi við mig þessa hugmynd um að setja upp samsýningu á nokkrum stöðum hér úti í eyjunni,“ segir Sigurður Árni Sigurðsson myndlistarmaður í símtali frá París. Eyjan sem um ræðir er Île Saint-Louis, smærri eyjan í Signu í miðborginni. „Ég var svo heillaður af hugmyndinni og sagði bara strax já og nefndi um leið hvar ég vildi sýna.“

Veiðibúð út í miðri á 

Sigurður sýnir í veiðibúðinni La Maison de la Mouche sem finna má á eyjunni. „Þessa búð hef ég haldið mikið upp á alveg síðan ég kom hingað fyrst í nám 1987 og bjó hér rétt hinu megin við ána. Ég fann þessa búð mjög fljótlega og þar sem er grunnt á fluguveiðimanninum í mér þá heillaðist ég mikið af þessari fluguveiðibúð. Þetta er mjög falleg búð og tilfinningin er dálítið eins og gamla Reykjavíkurapótek, það eru litlar skúffur upp um allt með flugum. Ég hef síðan alltaf reglulega lagt leið mína hingað,“ segir Sigurður í símanum. 

Á sýningunni dreifa listamennirnir sér víða um eyjuna. „Þetta er í ostabúð, bókabúð og á meðan einn fer í kirkju fer annar í hótellobbý. Við bara tökum yfir eyjuna.“

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Árni Sigurðsson
Sumar flugurnar hans Sigurðar Árna eru nokkuð sérstakar.

Hjarta Parísar

Sigurður segir Île Saint-Louis ákaflega fallega. „Þetta er í raun hjarta Parísar. Hér er ákveðin þorpsstemning á eyjunni og það fara ekki margir í gegnum París nema koma út í þessar tvær eyjur,“ segir hann, en á stærri eyjunni, Île de la Cité, eru vinsælir ferðamannastaðir eins og Notre Dame kirkjan og Sainte-Chapelle kirkjan.

Og fluguveiðimaðurinn Sigurður Árni er yfir sig hrifinn að búðinni þar sem hann ætlar að sýna verk sín sem auðvitað eru flugur. „Hvað er fallegra en fluguveiðibúð í miðri París og fluguveiðibúð í miðri á? Þar eiga fluguveiðibúðir að vera!“

Viðtalið við Sigurð Árna má heyra hér fyrir ofan. Í innslaginu heyrist Sarah Vaughan syngja lagið April in Paris ásamt Clifford Brown og félögum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Árni Sigurðsson
Verslunin góða á Île Saint-Louis