Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Sýnir einbeittan brotavilja“

22.08.2018 - 16:15
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Vatnajökulsþjóðgarður hefur birt myndband sem sýnir för eftir utanvegaakstur við Jökulsá á Breiðamerkursandi og í friðlandinu við Grafarlönd á Öskjuleið. 25 erlendir ferðamann voru þar á ferð í sjö breyttum íslenskum jeppum og segir þjóðgarðurinn í færslu sinni á Facebook að förin sýni „einbeittan brotavilja ökumannanna.“ Förin í sandinum lagast ekki af náttúrunnar hendi fyrr en að vetri loknum en þangað til munu þau valda auknu sandfoki.

Í færslunni kemur fram að þetta sé alvarlegasta utanvegaakstursmál sumarsins á Breiðamerkursandi. Förin ná 1,3 kílómetra í beinni loftlínu frá vel afmörkuðu bílastæði. Þeir hafi þó ekið mun lengra en 2,6 kílómetra utanvegar þar sem inni í þeirri tölu séu „til að mynda ekki allar þær slaufur sem þeim fannst nauðsynlegt að aka.“

Þá segir jafnframt að landverðir séu miður sín að sjá vinnu sumarsins við að afmá utanvegaakstursför á þessu svæði hverfa í einni svipan. „En eru þó ánægðir að afmörkun bílastæðisins, sem unnin hefur verið í sumar, er að skila sér í færri utanvegarakstursmálum og förum á þessu tiltekna stað innan svæðisins. Einnig er gott að vita til þess að ökumennirnir hafa þurft að svara fyrir brot sín.“

Í þessu myndskeiði sem má síðan sjá skemmdirnar við Grafarlönd en landverðir segja að þær séu það verstu í tíu ár. Þau þarf að reyna að afmá með sérbúnum tækjum og ekki sé hægt að raka. Melurinn muni því ekki jafna sig fyrr en eftir einhver ár. 

Ferðamönnunum var gert að greiða 1,4 milljónir í sekt en þeir kenndu kunnáttuleysi og vanþekkingu um gjörðir sínar. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV