Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sýnileg vopn verði tímabundið á fjöldasamkomum

19.06.2017 - 20:19
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra vonar að það sé tímabundið fyrirkomulag, að sérsveitarmenn gangi um með sýnileg skotvopn á fjöldasamkomum. Það sé ágætt ef vopnaðir sérsveitarmenn hafi ekki verið áberandi á hátíðarhöldunum 17. júní.

Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að sérsveitarmenn beri sýnileg skotvopn á fjöldasamkomum hér á landi, að minnsta kosti í sumar. Nokkrir sérsveitarmenn báru til dæmis skotvopn í Litahlaupinu og á landsleik Íslands og Króatíu. Einnig stóð til að þeir bæru sýnileg skotvopn á 17. júní-hátíðarhöldum og á Secret Solstice um helgina. Þau vopn voru hins vegar ekki áberandi og ekki hafa fengist upplýsingar um það hvernig sá vopnaburður fór nákvæmlega fram.

Bjarni segist skilja að skiptar skoðanir séu á málinu, enda vilji allir búa í friðsömu samfélagi. „Ég tel reyndar að Ísland sé á margan hátt einstakt, jafnvel í allri Evrópu, fyrir það hversu frjáls og örugg við erum. Ekki bara geta börnin okkar leikið sér úti á götu heldur get ég gengið um götur borgarinnar án þess að það þurfi sérstaklega að huga að mínu öryggi. Það er ekki þannig í öðrum löndum. Á sama tíma þurfum við að hlusta eftir ráðum þeirra sem fjalla um þessi mál sérstaklega. Og lögreglan er með það verkefni á sinni könnu. Og þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til núna í sumar vegna fjöldasamkoma finnst mér vera alveg eðlilegar og hafa verið rökstuddar af lögreglunni. Og mér finnst að hún eigi áfram að hafa traust til að leggja mat á þetta þannig að okkar öryggi sé sem best gætt.“ 

Það stóð til að lögreglan yrði vopnuð um helgina, á 17. júní og á Secret Solstice, en það fór eitthvað lítið fyrir því. Veistu hvernig stendur á því? 

Það voru sérsveitarmenn á Austurvelli um helgina. Það er ágætt ef menn tóku ekki eftir þeim. Ég þekki ekki hvernig þessu var farið á útihátíðinni. En það mál snýst einfaldlega um að ef það koma upp atvik sem bregðast þarf skjótt við, þá eru menn í nálægð við atburðina. Þetta er niðurstaða sem menn fá, meðal annars af alþjóðlegu samstarfi, þar sem í ljós hefur komið svo oft að þegar koma upp alvarleg atvik er það viðbragðstíminn sem skiptir öllu.

Vonarðu að þetta sé tímabundið?

Já, ég vonast auðvitað til þess að það sé ekki nein ástæða til að hækka viðbúnaðarstigið hér í framtíðinni. Að við séum áfram með aðstæður á Íslandi sem senda skilaboð til okkar allra um að það sé ekkert að óttast. Og í raun og veru er það staðan í dag. Það er engin ástæða til að gera of mikið úr því þó að menn vilji vera með vissan lágmarksviðbúnað þegar mikill mannfjöldi kemur saman,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.