Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Syngja til stuðnings Púertó Ríkó

Mynd með færslu
 Mynd: Youtube

Syngja til stuðnings Púertó Ríkó

07.10.2017 - 11:11

Höfundar

Lin-Manuel Miranda, höfundur söngleiksins Hamilton, leiðir söng í nýju fjáröflunarlagi sem gefið hefur verið út til styrktar Púertó Rico sem er illa farin eftir fellibylinn Maríu sem fór yfir eyjuna fyrir rúmum hálfum mánuði. Tugir létu lífið í óveðrinu.

Fjöldi söngvara af suður-amerískum uppruna syngur lagið, þeirra á meðal Jennifer Lopez, Marc Anthony fyrrverandi eiginmaður hennar, og Luis Fonsi, sem Íslendingar þekkja sennilega best fyrir að syngja sumarsmellinn Despacito. Fonsi er frá Púertó Ríkó og Jennifer Lopez á ættir að rekja þangað.  

Laglínan sem Miranda syngur, Almost like praying, er vísun í línu úr laginu María úr West Side Story, sem gerðist í New York og fjallaði um ungt fólk ættað frá Púertó Ríkó.

Miranda komst í fréttirnar um síðustu helgi fyrir að gagnrýna Donald Trump forseta Bandaríkjanna fyrir Twitter færslu sem hann skrifaði. Í færslunni sagði forsetinn að yfirvöld á Púertó Ríkó væru vanþakklát og að þau vildu að allt væri gert fyrir þau, eftir að borgarstjóri San Juan óskaði eftir meiri aðstoð. 

Miranda svaraði þá forsetanum á Twitter og sagði að hann færi beinustu leið til helvítis. Hann þyrfti ekki að bíða lengi í röð.

Listamaðurinn bakkaði ekki með orð sín í viðtali á NBC í gær, þangað sem hann var mættur til að kynna lagið heldur sagði að það væri fordæmalaust að forseti réðist á fórnarlömb náttúruhamfara. „Þetta voru einu orðin sem ég átti eftir, og ég vinn við að koma orðum saman,“ sagði Miranda. 

Tengdar fréttir

Veður

Biður um 29 milljarða til aðstoðar Púertó Ríkó

Hamfarir

Fórnarlömb Maríu á Púertó Ríkó minnst 34

Veður

Bandaríkjaforseti heimsækir Púertó Ríkó