Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sykurát minnkað um 10 kg en ofþyngd aukist

04.01.2017 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir - RÚV
Sykurát hefur minnkað um tíu kíló á mann á hálfri öld. Á sama tíma hefur ofþyngd aukist. Hagfræðingur Samtaka iðnaðarins furðar sig á því að einblína á sykur sem ástæðu þyngdaraukningar þjóðarinnar. Prófessor í heilsufélagsfræði segir að áhrif sykurskatts hafi ekki verið rannsökuð til hlítar áður en skatturinn var afnuminn.

Laufey Steingrímsdóttir, prófessor við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, sagði í fréttum RÚV í gær að þótt dregið hefði úr sykurneyslu síðastliðin fimmtán ár væri hún enn mikil. Gosdrykkjaþamb og sælgætisát hafi aukist. Laufey segir að þetta sé samfélagslegt mál. Þessi mikla neysla á gosdrykkjum skaði heilsufar Íslendinga og það þurfi öll þjóðin að kljást við.

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, en í þeim eru meðal annars sælgætis- og gosdrykkjaframleiðendur, sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 að þvert á móti sé öfug fylgni milli heildarsykurneyslu á mann og aukinnar líkamsþyngdar. Fyrstu tölur um sykurneyslu á mann séu frá 1967 og birtar á vef Landlæknisembættisins. Þær nýjustu frá árinu 2014. „Hún er að minnka úr ca 51-52 kg á mann niður í 41-42 kg 2014,“ segir Bjarni. „Á sama tíma og þyngdin á að hafa verið að aukast jafnt og þétt, þá er neysla, heildarneysla á sykri að dragast jafnt og þétt saman yfir sama tímabil. Og fyrir mér gengur það eitthvað illa upp að benda á að sykur sé aðalvandamáli og eina lausnin sem bent er á í þessu samhengi, hver er hún? Sykurskattur,“ segir Bjarni.

Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í heilsufélagsfræði, segir að margt skýri þyngaraukningu landsmanna en almenn hreyfi fólk sig of lítið og borði of mikið. „Það eru ekki rök fyrir því að ekki eigi að verðleggja sykur með sérstökum hætti eða umfram það sem nú er. Viðbættur sykur er vissulega þáttur í þessu stóra máli ásamt fjölmörgum þáttum. Ég tel að það hafi ekki verið athugað með nægilega skipulegum hætti og yfir nægilega langan tíma hver áhrif af sykurskatti gætu orðið. Hann var afnuminn áður en við höfðum fullnægjandi upplýsingar um áhrif af honum, að mínu mati,“ segir Rúnar.