Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sýknudómur yfir Kaupþingsmönnum ómerktur

19.10.2017 - 15:44
Mynd með færslu
 Mynd: Fréttastofa - RÚV
Hæstiréttur ómerkti í dag sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir þremur fyrrverandi æðstráðendum Kaupþings í svokölluðu CLN-máli. Niðurstaða Hæstaréttar er sú að rannsaka þurfi betur tugmilljarða samkomulag sem Deutsche Bank gerði við Kaupþing ehf. og tvö eignarhaldsfélög í desember í fyrra. Efni og aðdragandi samkomulagsins geti skipt máli við mat á sekt þremenninganna og refsingu yfir þeim. Rétta þarf aftur í málinu í héraði.

Í CLN-málinu voru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, ákærðir fyrir að lána jafnvirði 72 milljarða króna út úr Kaupþingi í flókin viðskipti með svonefnd lánshæfistengd skuldabréf. Magnús Guðmundsson, sem var forstjóri bankans í Lúxemborg, var ákærður fyrir hlutdeild í brotunum.

Í ákæru var því haldið fram að öll fjárhæðin hefði tapast, en með samkomulagi Deutsche Bank frá í fyrravetur, sem nemur jafnvirði um 51 milljarðs, er ljóst að svo er ekki – með því endurheimtist stór hluti fjárins. Samkomulagið var gert í desember, um svipað leyti og aðalmeðferð málsins fór fram í héraði. Dómur héraðsdóms var kveðinn upp 26. janúar.

Kröfðust frávísunar eftir fréttir RÚV

Hvorki Kaupþingsmenn né ákæruvaldið vissu af samkomulagi Deutsche Bank við Kaupþing og félögin tvö, Chesterfield United og Partridge Management Group, fyrr en fréttastofa RÚV greindi frá því í vor.

Eftir að hafa séð fréttina kröfðust Kaupþingsmenn frávísunar málsins þar sem samkomulagið sýndi fram á að það hefði ekki verið nægilega rannsakað í upphafi. Fréttastofa fjallaði ítarlega um málflutninginn í Hæstarétti fyrir rúmri viku, sem nú hefur leitt til þessarar niðurstöðu. Þar kom fram að mikil leynd hvíldi yfir samkomulaginu, efni þess og aðdraganda.

Af hveru greiddi Deutsche Bank?

Hæstiréttur fellst ekki á það með Kaupþingsmönnum að málið hafi verið vanransakað af Sérstökum saksóknara í upphafi – ekkert hafi bent til þess á þeim tíma að Deutsche Bank teldi sér skylt að greiða þetta fé. Svo virðist hins vegar sem það sé komið í ljós núna, þótt ástæðan sé ókunn.

„Hvorki liggur fyrir af hvaða ástæðum bankinn féllst á að inna þessar greiðslur af hendi né með hvaða rökum eða á grundvelli hvaða gagna [Kaupþing ehf.] og félögin tvö reistu málsóknir sínar á hendur [Deutsche Bank] um greiðslu. Þá liggur heldur ekki fyrir hvers eðlis greiðslurnar voru, hvort um hafi verið að ræða samningsbundnar greiðslur eða hvort þær voru skaðabætur og ef svo var hvers eðlis þær skaðabætur voru,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Þetta geti hins vegar haft þýðingu fyrir úrlausn málsins. Því þurfi að vísa málinu aftur heim í hérað. Þá muni meðal annars gefast kostur á að afla rannsóknar lögreglu á samkomulaginu.

Ekki skoðað hvort héraðsdómur hafi verið gallaður

Björn Þorvaldsson saksóknari fór fram á það fyrir Hæstarétti að sýknudómurinn yrði ógiltur, en þó af annarri ástæðu: vegna þess að dómurinn væri einfaldlega illa unnin og gallaður. Héraðsdómur telur að fyrst hitt atriðið leiði til ógildingar og heimvísunar í hérað þá komi þessi sjónarmið saksóknara ekki einu sinni til skoðunar.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins til Hæstaréttar fellur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjendanna: tæpar 5 milljónir fyrir Hörð Felix Harðarson og Gest Jónsson, verjendur Hreiðars og Sigurðar, og rúmar 2,7 milljónir fyrir Kristínu Edwald, verjanda Magnúsar.