
Sýknaður af ákæru fyrir að lita Strokk
Evaristti hellti fimm lítrum af rauðum matarlit í Strokk í apríl í fyrra sem leiddi til þess að þegar hverinn gaus var hann rauður. Evaristti var ákærður fyrir brot á náttúruverndarlögum fyrir þennan gjörning. Í ákærunni sagði að umhverfi hversins hafi verið raskað þar sem hverinn gaus rauðlituðu vatni sem sat eftir í pollum. Litablettir hafi orðið eftir á steinvölum og hverahrúðri í kringum hverinn þar sem litarefni slettist, og það hafi setið eftir í nokkurn tíma.
Evaristti hefur lýst því yfir að þetta sé list þar sem náttúran er notuð sem nokkurs konar strigi. Hann hafi margoft beitt þessum aðferðum áður. Þá hefur hann sagt að liturinn sé algjörlega skaðlaus og hverfi fljótt. Tilgangurinn hafi verið að vekja athygli á náttúruvernd með því að breyta náttúrunni og skapa umræðu.
Í niðurstöðu héraðsdóms segir að Evaristti sé sýknaður, meðal annars með vísan til þess að orðalag þess ákvæðis náttúruverndarlaga sem ákært var fyrir uppfylli ekki kröfur um skýrleika refsiheimilda. Þá liggi ekkert fyrir um að Evaristti hafi með háttsemi sinni valdið spjöllum á náttúru landsins. Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda Evaristti, rúm hálf milljón króna.