Svona stendur þú við áramótaheitin

Mynd:  / Pexels

Svona stendur þú við áramótaheitin

02.01.2019 - 16:07
Í upphafi árs eru margir sem hafa strengt áramótaheit. Það getur hins vegar verið meira en að segja það að standa við heitin og rannsóknir sýna að innan við 10% áramótaheita endast út heilt ár.

Vigdís og Gummi ræddu áramótaheit í nýjasta þætti Veistu hvað? og fóru meðal annars yfir það sem gott er að hafa í huga þegar maður strengir áramótaheit. Það sem verður nefnilega oft til þess að fólk stendur ekki við áramótaheitin sín er sú staðreynd að markmiðin eru einfaldlega ekki ígrunduð. 

Áramótaheitin verða að vera markmið sem að þig langar raunverulega að ná, gott getur verið að notast við SMART-regluna. Markmið eiga að vera skýr, mælanleg, aðlaðandi, raunhæf og tímasett. 

Í fyrsta lagi þarf að vera skýr rammi utan um það hverju þú vilt breyta og hvernig þú ætlar þér að breyta því. Markmiðið þarf svo að vera mælanlegt, þú verður að vita hvenær þú hefur náð því. 

Í þriðja lagi þarf markmiðið að vera aðlaðandi og eitthvað sem þú sérð kost í því að uppfylla. Í fjórða lagi þarf það augljóslega að vera raunhæft, þú verður a að geta náð því, annars verður þú einungis fyrir vonbrigðum. Síðast en ekki síst þarf markmiðið að vera tímasett og því þarf að ljúka á einhverjum tímapunkti, það getur verið erfitt að eiga við markmið sem er í raun allsherjar lífstílsbreyting. 

Til viðbótar við þetta getur svo verið gott að vinna heitið í litlum skrefum og að vinna það með öðrum til að hvetja þig áfram ef þú ert alveg að gefast upp. 

Fleiri ráð til að strengja og standa við áramótaheit er að finna í Veistu hvað? þættinum sem hægt er að hlusta á í fullri lengd í spilaranum hér fyrir ofan.