Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Svona hófst eldgosið í Holuhrauni

29.08.2014 - 11:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Eldgos hófst í Holuhrauni, um 10 km norðan Vatnajökuls, rétt fyrir miðnætti. Gossprungan er um kílómetri að lengd og er gosið rólegt hraungos. Stefán Drengsson, klippari hjá RÚV, tók saman myndband úr vefmyndavél Mílu þar sem upphafsmínútur gossins sjást greinilega.

Stefna sprungunnar er norðaustur - suðvestur. Hún er um fimm kílómetra frá jökli og lengst nær hraunrennslið um 500 metra. Björn Oddsson, jarðfræðingur og verkefnastjóri hjá Almannavörnum, sagði að gosið hefði byrjað með óróapúls rétt eftir miðnætti sem stóð til kl. 2 í nótt.

Síðan hefði gosóróinn verið stöðugur. Hann hefði verið lágur en með sveiflum. „Það eru ennþá skjálftar í Bárðarbungu og í ganginum sem fylgst hefur verið með síðastliðna þrettán daga.“

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur sagði í aukafréttatíma RÚV kl. 10 að í raun mætti kalla eldgosið í Holuhrauni hálfgert slys. Flest bendi til þess að gosið hafi lítil áhrif á bergganginn, sem menn hafi fylgst með undanfarna daga,  þar sé enn mikil skjálftavirkni og áfram sé að bætast í hann. 

Magnús segir að menn verði að vera undir það búnir að þetta sé upphafið að ferli sem standi í einhvern tíma.