Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Svona hljómar gamli lýsistankurinn á Djúpavogi

Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson / Lýsistankurinn á Djúpavogi

Svona hljómar gamli lýsistankurinn á Djúpavogi

01.07.2016 - 13:24

Höfundar

Á Djúpavogi hefur gamall lýsistankur staðið við gömlu bræðsluna engum til gagns en það breytist brátt. Gat hefur verið skorið að tankinn og hann hreinsaður að innan. Það er fyrsta skrefið í því að breyta honum í viðburða- og sýningarrými.

„Uppbyggingarsjóður Austurlands styrkti okkur sem sagt um að þrífa tankinn að innan og skera gat og búa til hurð á hann. Alveg ótrúlegt hvað þetta þrífst vel. Hann Hallgrímur Jónsson tankahreinsari á Höfn er algjör snillingur og er með sérstaka vélar fyrir þetta. Þetta var ógeðslegt fyrir nokkrum vikum síðan,“ segir Erla Dóra Vogler ferða- og menningarmálafulltrúi Djúpavogs.

Hljómburðurinn í tankinum er sérstakur með seinfara bergmáli sem heyra má í útvarpsfréttinni sem hlusta má á í spilaranum hér að ofan. Erla Dóra segir að þetta gæti nýst á skemmtilegan hátt á tónleikum. „Það er dálítið mikið spennandi sko og hljóðlistaverk öll. En þetta hringform er líka mjög skemmtilegt fyrir alls konar myndlistarsýningar eða skúlptúra eða hvað sem er.“

Talsverð vinna er eftir áður en rýmið verður tilbúið. „Þetta verður tekið í hollum. Núna fengum við styrk fyrir að þrífa og það voru líka vinklar og hitunarrör og allt þetta í gólfinu. Það var allt hreinsað burt, Smástál hérna á Djúpavogi gerði það. Svo bara verður næsti liður að setja rafmagn í tankinn. Svo reynum við að kaupa tækjabúnað. Þetta verður bara svona eitt skref í einu. Við höfum aldrei verið með sýningar- eða viðburðarými á við þetta og þetta er allt öðruvísi en allt annað sem við erum með. Alltaf til bóta að hafa meiri fjölbreytni.“