Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Svona ferðir taka mikið á andlega“

24.08.2017 - 21:32
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Miklar náttúruhamfarir urðu í Sierra Leone í síðustu viku þegar aurskriða féll í miklum rigningum og um 1000 manns létu lífið. Samfélagið er niðurbrotið segir Regína Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Aurora velgerðasjóðs, sem hefur varið síðustu 10 dögum í landinu. 

Aurskriðan féll þann 14. ágúst í Freetown, höfuðborg Vestur-Afríkuríkisins Sierra Leone, og hreif með sér allt sem varð á vegi hennar - hús, bíla og vegi.

Regína var þar í 10 daga og segir tjónið gríðarlegt. Um 1000 manns eru látnir og mörg þúsund manns heimilislausir. „Þetta voru náttúrulega gífurlega mikið mannfall á rosalega stuttum tíma, ég meina ebólan var þarna i tvö ár og það dóu um fjögur þúsund manns en þarna dóu um þúsund manns á nokkrum klukkutímum þannig allt samfélagið var niðurbrotið. Miðað við ástandið núna þá telur maður að það muni nú ekki finnast fleiri lík.“ segir Regína. 

Regína segir að stjórnvöld hafi brugðist hægt við en það hafi komið að lokum. „Það er búið að vera að gefa mikla peninga frá Bretlandi, frá Tyrklandi og Kína og nýjustu fréttir er það að það á að setja upp nýtt samfélag í rauninni þar sem verður byggð hús fyrir þetta fólk sem missti húsnæðið sitt, maður á auðvitað eftir að sjá það raungerast en það eru allavega plönin í dag.“

Eðlilega taki svona ferðir mikið á sálina. „Þetta var mjög átakanlegt og ég kannski fattaði ekki þegar ég var þarna fyrsta daginn fyrr en ég kom bara svona heim til mín aftur í mína fínu íbúð og mínar allsnægtir hvað þetta er rosalegt. Og bara að sjá konur með lítil börn á bakinu og börnin bara í náttfötunum af því þannig voru þau það var nótt þegar þetta gerðist og það hefur ekkert - búin að tapa öllu, flestir búnir að horfa á eftir ástvinum sínum fara þannig að já maður verður svolítið dofin. Þetta tók mjög á andlega.“