Svona er EM í fótbolta

epa04097236 The UEFA European Championship Trophy is seen on stage during the qualifying draw for the UEFA EURO 2016 in Nice, France, 23 February 2014.  EPA/FEDERICO GAMBARINI
 Mynd: EPA

Svona er EM í fótbolta

04.06.2016 - 09:50
Í fyrsta sinn í sögunni eru 24 lið í Evrópukeppninni í knattspyrnu karla í Frakklandi og íslenska landsliðið er á meðal þeirra. Lokakeppnin hófst í Frakklandi 10. júní og lýkur með úrslitaleik 10. júlí 2016.

Liðunum var fjölgað í 16 árið 1996 en verða nú í fyrsta skipti 24 talsins. Liðunum er raðað í sex riðla og eru fjögur lið í hverjum þeirra. Sextán lið komast áfram úr riðlakeppninni. Fyrst mætast þau í 16 liða úrslitum, þá 8 liða úrslitum og loks 4 liða úrslitum, áður en það ræðst hvaða tvö lið mætast 10. júlí á Stade de France í París. Rétt er að benda á frábæran vef Guardian með umfjöllun um öll liðin og alla leikmenn á EM.

Mynd með færslu
 Mynd: UEFA

Gestgjafarnir, Frakkar, fengu sjálfkrafa þátttökurétt í lokakeppninni en hin 53 Evrópulöndin áttust við í undankeppni til að slást um þau 23 sæti sem eftir voru. Riðlakeppnin hófst í september 2014 og lauk í nóvember í fyrra. Frakkland var valið til að halda lokakeppnina og hafði þar betur gegn Ítalíu og Tyrklandi. Lokakeppnin fer fram í Bordeaux, Lens, Lille, Lyon, Marseille, Nice, Paris, St-Etienne, Toulouse og á Stade de France. Frakkar hafa tvisvar áður haldið lokakeppnina, 1960 og 1984. Þeir urðu Evrópumeistarar 1984 og 2000.

Mynd með færslu
 Mynd: UEFA

Lokakeppnin í Frakklandi verður með talsvert breyttu sniði vegna þess að liðunum hefur verið fjölgað. Riðlunum hefur verið fjölgað úr fjórum í sex og útsláttarkeppnin er lengri fyrir vikið. Tvö lið af fjórum í hverjum riðli komast áfram í útsláttarkeppnina og að auki fjögur af þeim sex liðum sem ná bestum árangri í þriðja sæti hvers riðils. Það fara því 16 lið áfram í útsláttarkeppnina en aðeins átta lið fara heim eftir riðlakeppnina. Þetta er í raun nákvæmlega sama fyrirkomulag og var á HM árin 1986, 1990 og 1994, að því undanskildu að nú verður ekki spilað sérstaklega um þriðja sætið. Leikirnir verða því samtals 51 en ekki 31 eins og í síðustu keppnum og lokakeppnin stendur í heilan mánuð. Reglur um hvaða lið fara áfram og hvernig þau raðast í útsláttarkeppnina má sjá hér.

Samtals verða leiknir 51 leikir á EM í Frakklandi en leikirnir voru 31 þegar 16 lið voru á EM. Gianni Infantino, forseti evrópska knattspyrnusambandsins, hefur viðurkennt að þetta fyrirkomulag sé ekki til fyrirmyndar. Liðin í þriðja sæti geti vitað fyrirfram hvaða úrslita er þörf og jafnvel að andstæðingar í leik hafi sameiginlega hagsmuni.

epa05065381 UEFA General Secretary Gianni Infantino holds a press conference held in Paris, France, 11 December 2015.  Paris will host on 12 December the EURO 2016 Final Draw, to establish groups for the tournament.  EPA/IAN LANGSDON
 Mynd: EPA
Gianni Infantino, forseti evrópska knattspyrnusambandsins

Fjögur stigahæstu liðin af þeim 6 sem lenda í þriðja sæti síns riðils komast áfram í 16 liða úrslit. Ef lið hafa jafnmörg stig ræður markamunur og fjöldi skoraðra marka ef hann er jafn. Ef lið eru með jafnmörg stig og sama markamun, ræðst niðurstaðan á fjölda spjalda, þannig að það lið sem fær færri spjöld kemst áfram. Ef svo ólíklega vill til að enn sé allt jafnt, ræðst niðurstaðan á stöðu lands á styrkleikalista UEFA.

Þrettán af þeim 16 liðum sem voru í síðustu lokakeppni árið 2012 eru einnig með að þessu sinni. Meðal þeirra er England en liðið varð það sjötta í sögunni til að ná fullkomnum árangri í undankeppninni, sigraði í öllum 10 leikjum sínum. Einnig núverandi Evrópumeistarar Spánverja og heimsmeistarar Þjóðverja sem eru í tólfta sinn í röð í lokakeppninni. 

Rúmenía, Tyrkland, Austurríki og Sviss eru öll í lokakeppninni að þessu sinni en voru ekki með árið 2012. Austurríki hefur reyndar aðeins einu sinni áður komist í lokakeppnina en það var árið 2008 þegar keppnin var haldin í Austurríki og Sviss. Belgía er í lokakeppninni í fyrsta sinn frá því að keppnin var haldin í Belgíu og Hollandi árið 2000 og Ungverjar eru með í fyrsta sinn í 44 ár. Þeir voru síðast með í Belgíu árið 1972 og komust síðast á HM fyrir 30 árum, í Mexíkó árið 1986.

Mynd með færslu
 Mynd: El Gráfico - Wikimedia
Maradona varð heimsmeistari þegar Ungverjar tóku síðast þátt í stórmóti

Ísland er meðal 5 liða sem eru í fyrsta sinn í lokakeppninni en hin eru Albanía, Norður-Írland, Slóvakía og Wales. Norður-Írland, Slóvakía og Wales hafa öll komist á HM en Ísland og Albanía hafa ekki áður tekið þátt í lokakeppni á stórmóti. Austurríki og Úkraína komust í fyrsta skipti áfram úr undankeppni en höfðu einu sinni áður tekið þátt í lokakeppni sem gestgjafaþjóð.

epa05066591 Former Greek forward Angelos Charisteas shows the lot of Iceland during the draw ceremony for the UEFA EURO 2016 at the Palais des Congres de la Porte Maillot, in Paris, France, 12 December 2015. The UEFA EURO 2016 soccer championship will
 Mynd: EPA EPA
Íslenska karlalandsliðið fer á stórmót í fyrsta sinn

Þrjár þjóðir sem hafa orðið Evrópumeistarar eru ekki með að þessu sinni. Grikkir urður Evrópumeistarar árið 2004 en enduðu að þessu sinni í neðsta sæti síns riðils. Hollendingar urðu Evrópumeistarar 1988 en komust ekki upp úr riðlinum og Evrópumeistarar Dana frá 1992 eru heldur ekki með að þessu sinni. Danir töpuðu fyrir Svíum í umspilsleik. 

Liðunum 24 var raðað í fjóra styrkleikaflokka, samkvæmt styrkleikalista UEFA, en Evrópumeistarar Spánar og gestgjafar Frakka voru sjálfkrafa í efsta styrkleikaflokki. Í hverjum riðli er eitt lið úr hverjum styrkleikaflokki. Ísland var í neðsta styrkleikaflokki og dróst í riðil með Portúgal, Austurríki og Ungverjalandi. Á styrkleikalistanum, sem miðað var við, var Portúgal númer 4, Austurríki númer 11, Ungverjaland númer 20 og Ísland 27.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Ísland með fulltrúa flestra liða