„Svona er bara pólitíkin“

30.11.2017 - 14:37
Mynd: RÚV / RÚV
Jón Gunnarsson segir að það að missa ráðherraembætti sé eitt af því sem menn verði að þola þegar þeir eru í stjórnmálum. Jón var samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra í síðustu ríkisstjórn en verður ekki ráðherra í nýrri ríkisstjórn Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Hann segist hafa fengið tækifæri til að sýna hvers hann er megnugur með störfum sínum í ráðuneytinu.

„Svona er bara pólitíkin. Það sem mér er efst í huga á þessari stundu eru þau tækifæri sem ég fékk í samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytinu og sú góða samvinna sem tókst með mér og starfsfólki ráðuneytisins sem hefur staðið sig mjög vel, og þau afköst og árangur sem við höfum náð á skömmum tíma. Mér finnst hann vera eftirtektarverður og mjög ánægjulegur,“

Jón sagði að sér þætti vænt um þann stuðning sem hann hefði fundið fyrir innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins og meðal flokksmanna um land allt. „Þetta er það sem stendur upp úr á þessum tímamótum. Pólitíkin er síðan eins og hún er. Hún er margbreytileg og þetta er ein sviðsmynd hennar. Þetta verða menn að sætta sig við ef þeir eru í pólitík.“

Það er óþarft að spyrja menn hvort þeir séu ósáttir við að vera ekki lengur ráðherra, segir Jón. „Menn eru í stjórnmálum til að sækjast eftir áhrifum. Ég hef fengið mitt tækifæri. Ég hef náð að sýna á þeim vettvangi hvers ég er megnugur.“

„Mér líst vel á þetta samstarf,“ segir Jón um stjórnarsamstarfið. Hann segir ekki heppilegt að maður sem verið hafi tíu ár á Alþingi sé búinn að ganga í gegnum fimm Alþingiskosningar. Nú verði að efla stöðugleika og auka á ný virðingu þingsins.

Hér að neðan má sjá viðtöl við fjóra af fimm ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, þau Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, Kristján Þór Júlíusson, Guðlaug Þór Þórðarson og Sigríði Á. Andersen.

Mynd: RÚV / RÚV
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi