Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Svisslendingar kaupa mest

30.05.2014 - 15:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Erlendir ferðamenn vörðu 6,7 milljörðum króna í kaup á vöru og þjónustu hér á landi í apríl ef miðað er við erlenda kortaveltu hér samkvæmt samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar. Gistiþjónusta er hæsti útgjaldaliðurinn.

Erlend kortavelta var tæpum þrjátíu prósentum meiri í apríl en í apríl í fyrra. Í tölum Rannsóknaseturs verslunarinnar er ekki tekið tillit til verðlags og gert er ráð fyrir að útlendingar eigi þessi erlendu kort. Vera kann að Íslendingar búsettir erlendis eigi einhvern hluta af þessu. 1,2 milljörðum var varið í gistiþjónustu og nærri því jafnmiklu í ýmsa sérhæfða ferðaþjónustu eins og skoðunarferðir. Þriðji hæsti útgjaldaliðurinn var verslun. Hver erlendur ferðamaður eyddi á meðaltali 112 þúsund krónum í apríl og er þá miðað við komur erlendra ferðamanna til landsins samkvæmt upplýsingum Ferðamálastofu. Það er jafnmikið í krónum talið á hvern ferðamann og í apríl í fyrra. Svisslendingar kaupa langmest hér á landi, meðalkortavelta þeirra er 314 þúsund krónur, Rússar eru í öðru sæti með 213 þúsund og Spánverjar í þriðja með 168 þúsund. Minnst er keypt með greiðslukortum gefnum út í Póllandi, 33 þúsund, næstminnst með kínverskum kortum 37 þúsund, og þá með japönskum og breskum kortum.