Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Sviptur réttinum til að bera fálkaorðuna

09.12.2015 - 06:22
Sigurður Einarsson fer úr Héraðsdómi Reykjavíkur eftir að hafa gefið skýrslu í markaðsmisnotkunarmáli gegn Kaupþingsmönnum.
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hefur verið sviptur rétti til að bera fálkaorðuna. Þetta gerði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og stórmeistari orðunnar, á grundvelli 13. greinar Forsetabréfs um fálkaorðuna, þar sem segir að „Stórmeistari getur, að ráði orðunefndar, svipt hvern þann, sem hlotið hefur orðuna en síðar gerst sekur um misferli, rétti til að bera hana.“

Þetta kemur fram á vef Forseta Íslands. Þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingur eru sviptur réttinum til að bera fálkaorðinu en Hæstiréttur dæmdi Sigurð í 4 ára fangelsi fyrir aðild sína að Al-thani málinu svokallaða fyrir tíu mánuðum. Sigurður hlaut orðuna 2007 fyrir „forystu í útrás íslenskrar fjármálastarfsemi.“

Í Morgunblaðinu í morgun er haft eftir Guðna Ágústssyni, formanni orðunefndar, að Ólafur Ragnar hefði svipt Sigurð réttinum til að bera orðuna fyrir nokkrum vikum. „Ég tel að þetta þýði að Sigurður hafi endanlega verið sviptur orðunni og geti ekki borið hana á ný,“ hefur Morgunblaðið eftir Guðna.

Guðni sagði við fréttastofu RÚV í október að málið væri enn í skoðun og að engin niðurstaða væri komin í málið. „Við sjáum til,“ svaraði Guðni þegar hann var spurður hvort það væri til marks um að ekkert yrði gert í málinu.

Málið komst í hámæli eftir dóm Hæstaréttar í Al thani -málinu. Guðni sagði í febrúar að athygli orðunefndar hefði verið vakin á málinu og að orðunefnd væri skylt að fara yfir málið. 

Sigurður Einarsson var meðal helstu samstarfsmanna Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands en þetta kom fram í bók um forsetann sem Guðjón Friðriksson skrifaði.

Í bókinni kemur fram að Ólafur Ragnar hafi allt frá árinu 2000 unnið með Sigurði Einarssyni, bæði í þágu bankans og annarra málefna. Guðjón segir að telja megi Sigurð meðal helstu samstarfsmanna forsetans á síðari árum. 

Í rannsóknarskýrslu Alþingis um fall bankanna kom enn fremur fram að Ólafur Ragnar hefði átt fund eða samtal við Sjeik Mohamed Bin Khalifa AL-Thani sem átti að hafa keypt hlut í Kaupþingi. Og þeirri spurningu var varpað fram: Var embætti forseta Íslands misnotað í þágu útrásarinnar til að gera einstaka forkólfa og fyrirtæki trúverðug gagnvart erlendum fjárfestum?