Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sviptur kjóli og kalli vegna meints barnaníðs

16.02.2019 - 11:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Kardinálinn Theodore McCarrick var í morgun sviptur öllum stjórnarstörfum hjá Vatíkaninu í Róm vegna ásakana um kynferðisbrot gegn börnum. Hann er hæstsetti presturinn sem er sviptur kjóli og kalli innan kaþólsku kirkjunnar í áratugi.

Barnaníð hefur viðgengist innan kaþólsku kirkjunnar lengi og stjórnendur jafnvel sópað mörgum málum undir teppið í stað þess að tilkynna þau. McCarrick hefur verið einn af æðstu embættismönnum kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum síðustu ár en sagði af sér síðasta sumar eftir að hafa verið sakaður um að hafa misnotað ungling kynferðislega fyrir tæpri hálfri öld. Forsvarsmenn kirkjunnar sögðu ásakanirnar trúverðugar en McCarrick sagðist sjálfur ekki muna eftir þessari meintu misnotkun.

Hann var fyrsti kardinálinn til að segja af sér í tæpa öld, síðan 1927. Frans páfi féllst á afsögnina en í tilkynningu frá Páfagarði í morgun segir að McCarrick hafi verið sviptur öllu sínu, bæði stjórnar- og embættisstörfum, og ekki gefinn möguleiki á áfrýjun. McCarrick er einn af mörg hundruð klerkum sem eru sakaðir um kynferðisbrot gegn börnum og unglingum síðustu áratugi. Vatíkanið hefur boðað til ráðstefnu í næstu viku þar sem þessi margítrekuðu brot verða rædd og hvernig kirkjan geti brugðist við, komið í veg fyrir brot og komið málum níðinga í réttan farveg.