Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Svín sýnileg í íslenskri náttúru

31.05.2012 - 18:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Ferðamenn á leið um landið geta nú í fyrsta skipti séð svín í íslenskri náttúru. Um fimmtíu grísum verður komið fyrir á fjórum til fimm býlum hringinn í kringum landið. Þetta er liður í tilraunverkefni með vistvæna svínarækt.

Hátt í tuttugu grísum hefur þegar verið komið fyrir á tveimur búum. Á Bjarteyjarsandi í Hvalfirði og Hólsgerði í Eyjafirði eru grísirnir þegar farnir að spóka sig úti í góða veðrinu. Stefnt er að því að koma grísum fyrir á öðru búi í Eyjafirði, einu búi á Austurlandi og öðru búi á Suðurlandi. Misjafnt er hvað grísirnir eru margir en allt í allt verða þeir um fimmtíu.

Sú krafa er gerð að grísirnir geti verið inni og farið út þegar vel viðrað og haft þá frjálst rými, komist í gras og gert það sem svínum er eðlilegt að gera. Tilgangurinn er meðal annars að gera svín sýnileg í íslenskri náttúru. Hörður Harðarson er formaður Svínaræktarfélagsins segir að svínunum megi klappa eða öllu heldur klóra ef þau vilji það.

„Þá held ég að það sé bara smá krydd í tilveruna," segir hann. 

Svínaræktarfélag Íslands stendur fyrir verkefninu sem telst vistvæn svínarækt, tilraunaverkefni í grein sem að mestu fer fram á lokuðum svínabúum þar sem áhersla er á smitvarnir til að tryggja hollustu afurða og dýra og draga úr smithættu.

Þegar dýrunum verður slátrað í haust þá verður það gert með hefðbundnum hætti. Lagt verður mat á árangurinn af eldinu og  metið í framhaldinu hvort nægur markaður sé fyrir kjötiðog hvort haldið verður áfram með verkefnið á næsta ári.