Svigrúm til launahækkana 1,3 til 2,5 prósent

01.11.2018 - 22:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samtök atvinnulífsins telja að svigrúm til launahækkana sé á bilinu 1,3 til 2,5% á ári. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri samtakanna, segir þau sammála verkalýðshreyfingunni um margt, eins og til dæmis húsnæðismál. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, tekur undir það.

 

Samtök atvinnulífsins hafa að undanförnu verið í kynningarferð um landið þar sem áherslur þeirra voru kynntar og lauk henni í Hörpu í dag. Þar var farið yfir stöðu efnahagsmála, horfurnar, verðbólguna, stöðu krónunnar og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, sem og hvaða svigrúm sé til launahækkana. 

„Svigrúmið er auðvitað misjafnt eftir fyrirtækjum,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. „Sums staðar er það talsvert, sums staðar er það ekki neitt. En að meðaltali er það að ríma mjög vel við þessar hagvaxtarspár sem við höfum séð á undanförnum dögum, einhvers staðar á bilinu 1,3 til 2,5 prósent á ári sem er hins vegar mjög mikil launahækkun ef við lítum til annarra landa.“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sem var á fundinum, segir að það hafi vantað inn í kynninguna, hvernig launafólk hafi tapað peningum í gegnum skattkerfið, vöruverð og húsnæðiskostnað, vexti og verðtryggingu. „Því í öllum samanburði við löndin sem við berum okkur gjarnan saman við þá verðum við að taka tillit til kostnaðar við að lifa.“

Halldór Benjamín segist sjá marga snertifleti í kröfugerð verkalýðsfélaganna og margt annað skipti máli en launahækkanir. „Við þurfum að leysa húsnæðisvandann,“ segir hann. „Við leysum hann ekki með því að hækka laun, heldur leysum við húsnæðisvandann með því að byggja meira. Við þurfum að auka sveigjanleika á vinnumarkaði. Það er búið að jafna fölskylduábyrgðina á heimilum og vinnumarkaðurinn þarf að mæta þessu. Þannig að það eru fjöldamargir þættir sem ég held að verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur geta náð saman um.“

Ragnar Þór segist hafa meiri áhyggjur af stjórnvöldum heldur en Samtökum atvinnulífsins. „Það eru margir snertifletir sem við höfum fundið með Samtökum atvinnulífsins eins og til dæmis húsnæðismálum.“

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi