Svifryksmet í Reykjavík

02.01.2018 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd: R. Thorlacius - RÚV
Hæsta sólhringsmeðaltal svifryks frá upphafi mælinga var mælt við Grensásveg í Reykjavík fyrstu klukkustund ársins. Það var hærra en í eldgosunum í Eyjafjallajökli og í Grímsvötnum.

Í fréttatilkynningu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur segir að hæsta hálftímagildið hafi mælst klukkan hálftvö í stöðinni við Grensás eða rétt rúm 2500 míkrógrömm á rúmmetra. Sólarhringssvifryksmengun var yfir mörkunum á öllum fjórum mælistöðvum Reykjavíkurborgar. Heilsuverndarmörk svifryks miðast við 50 míkrógrömm á rúmmetra. Svifryk er fínasta gerð rykagna og á það greiða leið í öndunarfærin. Næsthæsta gildið í Reykjavík mældist í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, þá í farstöð við Eiríksgötu og minnst í farstöð við Hringbraut. Á öllum stöðvunum fjórum mældist svifrykið yfir sólarhringsheilsuverndarmörkum. Svifrykið við Grensásveg á nýársdag 2017 var örlítið minna en í ár. Á nýársdag 2016 mældist svifrykið hins vegar fjórfalt minna. 
Í tilkynningu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur segir að það sem sérstakt hafi verið við nýársdag að þessu sinni hafi verið að styrkur svifryks hafi haldist hár nær allan sólarhringinn. Venjulega falli styrkurinn hratt þegar líða fari á nóttina. Ástæðan sé samspil veðuraðstæðna og mikils ryks í andrúmsloftinu. Við svona aðstæður liggi mengunin yfir borginni, mest í lægðum en einnig þyrlist hún upp með vegryki við umferðargötu. 
Á nýliðnu ári fór styrkur svifryks við Grensásveg 17 sinnum yfir sólarhringsheilsuverndarmörk. Fylgjast má með styrk svifryks á vef Reykjavíkurborgar

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi