Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sveitarfélögin vilja fresta NPA innleiðingu

15.09.2018 - 12:48
Innlent · NPA
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur óskað eftir fresti á innleiðingu á NPA samningnum sem á að taka gildi um næstu mánaðamót. Reglugerð og kostnaðarmat sé ekki komið frá ráðuneytinu og því tefjist undirbúningur hjá sveitarfélögunum.

Alþingi samþykkti í vor lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir eða NPA. Lögin þykja mikið tímamótaskref í baráttu fatlaðs fólks fyrir bættum réttindum og hafa verið árum saman í vinnslu. Um næstu mánaðamót eiga sveitarfélögin samkvæmt lögunum að hefja gerð nýrra NPA samninga sem taki gildi um áramót ásamt því að endurgera gildandi NPA samninga sem eru um 50 talsins.

Gert er ráð fyrir að árið 2022  verði búið að ljúka við samninga við alla sem rétt eiga á þjónustunni, alls rúmlega 170 samningar. Lögmaður sambandsins, Tryggvi Þórahallsson, segir að ekki enn skýrt hvernig hátta eigi innleiðingunni, hve marga samninga eigi að gera á hvaða tímabili eða fjárhagslegt svigrúm því reglugerð sem skýri útfærsluna sé ekki tilbúin hjá ráðuneytinu. Því hafi sveitarfélögin ekki getað sett sínar reglur.

Hann segir að sambandið hafi bent á það í vor að tímaramminn væri of þröngur. „Já, við ræddum þetta í vor í aðdraganda lagasetningarinnar og ráðuneytið skoðaði það að leggja til frestun til áramóta en það hins vegar náði ekki í fram að ganga og við erum í raun bara að ítreka og árétta þessa tillögu núna því við sjáum að sveitarfélögin muni lenda í vandræðum með að taka við þessu verkefni og sinna því með forsvaranlegum hætti,“ segir Tryggvi.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, er mjög ósátt við ósk sveitarfélaganna um frestun. Í samtali við fréttastofu segir hún að þetta komi mjög illa fyrir notendur þessarar þjónustu. Barist hafi verið fyrir henni í áratug og loks þegar takist að lögfesta hana sé hugsanlega ekki hægt að innleiða hana á þeim tíma sem gert hafi verið ráð fyrir.

Ásmundur Einar Daðason velferðarráðherra sagðist í samtali við fréttastofu ekki þekkja til stöðu málsins en ef Sambandið hafi sent ráðuneytinu bréf verði það skoðað á mánudaginn.