Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Sveitarfélagið Austurland“ vinnuheiti nefndar

06.12.2018 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Kristján Þórisson - RÚV
Samstarfsnefnd um sameiningu Borgarfjarðar eystra, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar ætlar að starfa undir vinnuheitinu Sveitarfélagið Austurland og semja við RR ráðgjöf um að vinna stöðumat og framtíðarsýn fyrir mögulegt nýtt sveitarfélag. Stefnt er að því að íbúar kjósi um sameiningu fyrir lok næsta árs.

Fyrirtækið var valið úr hópi sex umsækjenda sem vildu stýra verkefninu. Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði og formaður sameiningarnefndar, segir að brátt hefjist mikið undirbúningsvinna. „Það verður lögð á það mikil áhersla að íbúarnir hafi beina aðkomu að undirbúningsvinnunni. Það verður þá gert bæði með formlegum íbúafundum og eins með aðkomu að starfshópum sem verða formaðir á næstunni,“ segir Björn. Þá verður sett upp heimasíða þar sem íbúar geta fylgst með framvindu og komið sjónarmiðum á framfæri.

Í tilkynningu frá samstarfsnefnd segir að áhersla verði á virkar starfsstöðvar í öllum byggðakjörnum og að hverfisráð hafi ákveðin völd yfir umhverfi og skipulagi. Í sameiningarferlinu verði unnið að samþykki stjórnvalda fyrir ákveðnum samgöngubótum sem gegni lykilhlutverki fyrir framtíðarþróun svæðisins. Þar er væntanlega átt við Fjarðarheiðargöng milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar og heilsársveg um Öxi milli Héraðs og Djúpavogs.

Athygli vekur að sameiningarnefndin valdi vinnuheitið sveitarfélagið Austurland á verkefnið en þrjú sveitarfélög á Austurlandi eru utan við þessa sameiningarvinnu; Fjarðabyggð, Vopnafjörður og Fljótsdalshreppur. Oft hefur verið rætt um að allt Austurland gæti orðið eitt sveitarfélag í framtíðinni og það myndi gerast í skrefum.

„Þetta vinnuheiti lagðist bara vel í nefndarmenn,“ segir Björn.

En gæti svo farið að þetta sveitarfélag verði hreinlega kallað Austurland?

„Sveitarfélagið Austurland, það gæti bara vel farið svo en ég reikna nú með því að það verði einhverjar tillögur um nöfn og síðan fá íbúar eins og hefð er fyrir að kjósa um hvaða nafn verður notað. En þetta gæti alveg verið einn valkosturinn og ekki sá lakasti held ég,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði og formaður sameiningarnefndar.