Sveitapilturinn sem færði listina til fólksins

Mynd:  / 

Sveitapilturinn sem færði listina til fólksins

31.05.2017 - 10:46

Höfundar

„Ásmundur Sveinsson var meira upptekinn af því en flestir aðrir listamenn að færa listina til fólksins,“ segir Kristín Guðnadóttir listfræðingur. „Ásmundur var til dæmis einn sá fyrsti sem tók á móti skólahópum til að kynna þeim myndlist á Íslandi. Þrátt fyrir að hann hafi menntað sig í myndlist í París og víðar var hann alltaf sami sveitapilturinn frá Kolsstöðum. Þetta kunnu landsmenn að meta.“

Ný sýning og bók

Listin fyrir fólkið heitir ný sýning á verkum Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara sem nú hefur verið opnuð í safni hans í Laugardalnum í Reykjavík. Sýningarstjóri er Ólöf K. Sigurðardóttir en í tenglsum við sýninguna er komin út glæsileg bók um Ásmund og verk hans. Í bókina ritar Kristín Guðnadóttir listfræðingur ítarlegt yfirlit um ævi og störf Ásmundar en aðrir höfundar í bókinni eru Eiríkur Þorláksson listfræðingur, Pétur H. Ármannsson arkitekt og Hjálmar Sveinsson heimspekingur. Rætt var við Kristínu í Víðsjá á Rás 1 og viðtalið má heyra hér fyrir ofan.  

Pólitískur í hugsun

Ásmundur var á því að listin skipti miklu máli í samfélaginu og sagði á einum stað: „Það er hið þjóðfélagslega gildi listar sem gerir hana einhvers virði. Það er tilgangslaust að skapa listaverk ef þjóðin á ekki að njóta þeirra.“

Mynd með færslu
 Mynd:

Kristín segir engu að síður að Íslendingar hafi verið lengi að taka á móti list Ásmundar. Hann fæddist 1893 en það var ekki fyrr en í lok síðari heimsstyrjaldar sem fyrsta verk hans var sett upp á opinberum vettvangi, eftir það liðu tíu ár þar til annað slíkt verk var sett upp. „Þegar menn fóru síðan að taka verk hans í sátt voru þau verk sem flestir hrifust að orðin svona 30 ára gömul og listamaðurinn farinn að gera allt annað. Við vorum svolítið á eftir listamanninum,“ segir Kristín.

Lifði fyrir listina

Kristín segir að Ásmundur hafi svo sannarlega lifað fyrir list sína. „Hann var miklu meiri tilfinningavera en menn hafa síðar talið. Hann var afskaplega víðsýnn og leitandi í sinni myndlist. Hann vildi kynna sér myndlist annarra og inntaka nýja strauma. Ásmundur er margslunginn listamaður.“

Í spilaranum hér fyrir ofan má heyra Kristínu Guðnadóttur segja frá Ásmundi og eins heyrast brot úr þætti Gylfa Gíslasonar, Í skímunni, frá árinu 1973 þar sem rætt var við listamanninn.