Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sveinbjörg Birna snýr aftur í borgarstjórn

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina, mætt í sjónvarpssal, til kappræðna fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík 2014.
 Mynd: RÚV
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, ætlar að snúa aftur til starfa sinna í borgarstjórn. Fram kom í Panamaskjölunum að hún var með tvö skráð félög á aflandseyju sem hún gerði ekki grein fyrir í hagsmunaskráningu borgarfulltrúa. Þegar þetta var upplýst sagðist Sveinbjörg Birna ekki snúa aftur úr fæðingarorlofi fyrr en innri endurskoðun borgarinnar hefði lokið úttekt sinni.

Sveinbjörg Birna sendi frá sér fréttatilkynningu rétt upp úr klukkan tólf. Þar sagði hún að samkvæmt úttekt innri endurskoðanda borgarinnar og regluvarðar væri staðfest að henni hefði ekki borið að skrá aflandsfélögin. Sveinbjörg Birna segir að jafnframt komi fram í úttektinni að hún hefði tilkynnt regluverði um þrjú einkahlutafélög en að hún hefði líka átt að tilkynna tengsl sín á skrá sem skrifstofa borgarstjórnar heldur um fjárhagslega hagsmuni. Jafnframt hefði Reykjavíkurborg ekki átt nein viðskipti við félög sem henni tengjast. Hún hefði ekki brotið sveitarstjórnar- eða stjornsýslulög.