Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Svavar Halldórsson dæmdur í Hæstarétti

15.11.2012 - 16:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Hæstiréttur snéri í dag við dómi héraðsdóms og dæmdi Svavar Halldórsson, fréttamann RÚV, fyrir meiðyrði um Jón Ásgeir Jóhannesson. Fréttin fjallaði um þriggja milljarða króna viðskiptafléttu. Jón Ásgeir krafðist þess að ummæli í fréttinni yrðu dæmd dauð og ómerk og á það féllst Hæstiréttur.

Hæstiréttur dæmdi Svavar jafnframt til að greiða Jóni Ásgeir 300 þúsund krónur í miskabætur og allan málskostnað, bæði fyrir héraði og Hæstarétti, samtals eina milljón.

Í dómi Hæstaréttar segir að Svavar hafi ekki lagt fram gögn um að umælin, sem tengdu Jón Ásgeir við viðskiptafléttuna, eigi við rök að styðjast og verði hann því að bera hallann af því. Þá hafi ekki verið sýnt fram á það að við vinnslu fréttarinnar hafi verið leitað eftir upplýsingum frá Jóni Ásgeiri um efni hennar.

Dómur Hæstaréttar er í þvert á dóm héraðsdóms Reykjaness, sem kveðinn var upp fyrir ári. Í héraðsdómi segir að Svavar hafi lýst því yfir fyrir dómi að fréttin hafi byggst á heimildum, munnlegum og skriflegum, sem hann meti trúverðugar. Héraðsdómur gerði ekki þá kröfu að Svavar færði sönnur fyrir þessu. Réttur fréttamanna til að standa vörð um og halda leynd yfir heimildum og heimildarmönnum hafi verið staðfestur í öðrum dómum. Héraðsdómur féllst einnig á að Svavar hefði sýnt nægilega fram á að hann hefði reynt að ná í Jón Ásgeir áður en fréttin var flutt og því ekki brotið starfsreglur Ríkisútvarpsins. Hæstiréttur var þessu ósammála og snéri dóminum við.